150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

jöfnun raforkukostnaðar.

[14:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til dáða í þessum efnum. Jöfnun á dreifikostnaði raforku getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs hjá fyrirtækjum í landinu eftir því hvar þau eru staðsett. Það er ekki ásættanlegt að dreifikostnaður raforku geti skilið þar á milli. Á aðalfundi Landsvirkjunar í síðasta mánuði var samþykkt að greiða ríkinu 10 milljarða kr. í arð. Á síðasta aðalfundi Orkubús Vestfjarða, sem haldinn var í síðustu viku, var ákveðið að greiða ekki út arðinn heldur verja fjármununum, sem eru, held ég, um 60 millj. kr., í framkvæmdir á svæðinu. Gætum við ekki horft til þessa arðs frá Landsvirkjun og flýtt þessari framkvæmd hvað varðar jöfnun á dreifikostnaði raforku?