150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur svarið. Það er einmitt komið inn á þetta á bls. 4 í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Nefndin fagnar ákvæðum áætlunarinnar um fræðslu handa starfsfólki leikskóla sem miðist sérstaklega að því hvernig megi ræða um ofbeldi við leikskólabörn …“

Þarna vil ég hvetja kerfið allt, ef svo má segja, til að fara varlega vegna þess að miðað við ræðu þingmanns eru þessi kennslugögn og upplýsingar til nú þegar, m.a. í gögnum sem hún nefndi hér áðan, Fræðsla ekki hræðsla, held ég að hv. þingmaður hafi sagt efnið heita. Leikskólakennarar og kennarar á fyrri stigum grunnskóla hafa í dag ágæta þekkingu og forsendur til að (Forseti hringir.) horfa á mál sem eru að þróast til alvarlegs vegar. (Forseti hringir.) En ég held að sú vegferð sem er stikuð út í þessari tillögu skapi töluverða hættu (Forseti hringir.) á að hræðsla verði yfirdrifin hjá þessum börnum.