150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[16:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann um málsmeðferð þessa máls í nefndinni. Við höfum fengið málið tíu sinnum á dagskrá nefndarinnar og tekið á móti mörgum gestum, eins og hv. þingmaður kom vel inn á, og lukum þessari umfjöllun með bókun á báða bóga.

Í bókun hv. framsögumanns segir, með leyfi forseta: „Samstaða náðist ekki um öll atriði, enda gengur samstarf ekki út á að einn aðili fái öllu sínu framgengt. Að kalla það einbeittan vilja til ágreinings er annaðhvort sprottið af þeirri hugsun að eðlilegt sé að fá öllu sínu framgengt eða mjög skapandi notkun tungumálsins. Þá er rétt að geta þess að enginn fulltrúi minni hlutans, hvorki formaður nefndarinnar né aðrir sem undir bókunina tóku, hafði samband við framsögumann málsins um að gera breytingar á drögum að nefndaráliti eftir að þau voru kynnt eða raunar nokkru sinni í meðferð málsins.“

Nú er þetta ekki upplifun mín af þessum atburðum, herra forseti, að við höfum aldrei lagt til breytingar á þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Er það skapandi notkun hv. þingmanns á tungumálinu að hann hafi ekki fengið tölvupóst? Eða dugar ekki til að nefna á nefndarfundum þær breytingar sem minni hlutinn vill gera?