150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ekki fóru allar athugasemdir minni hlutans inn. Er það nýtt fyrir hv. þingmanni við vinnslu mála? Ég skal, forseti, nefna hvað fór inn af athugasemdum minni hlutans úr glósum mínum, því að þrátt fyrir að svo megi virðast að ég hafi ekki tekið eftir á nefndarfundum þá var það einmitt þannig, án þess að ég rjúfi trúnað og tiltaki nákvæmlega hver hv. þingmanna minni hlutans stakk upp á hverju, það er reyndar skrifað líka. Það var talað um að hér þyrftu aðstoðarmenn að vera inni. Það var talað um að hagsmunaskráning þingmanna ætti líka að ná til maka. Það náðist ekki inn. Um það voru menn einfaldlega ósammála. Talað var um óháðan aðila. Ég fór yfir það. Nei, það náðist ekki inn. Talað var um að það væri of fortakslaust bann á birtingu upplýsinga. Það náði inn. Það var talað um aðstoðarmenn hér aftur, hef ég eftir þremur fulltrúum hv. minni hluta. Það var talað um að það ætti ekki að undanskilja sendiherra. Það náði inn. Talað var um að safna ætti upplýsingum um t.d. húsnæðislán. Það náði ekki inn.

Eins og sést, forseti, náði ýmislegt af athugasemdum minni hlutans inn. Annað ekki. Hvað er óeðlilegt við það?