150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum yfirferðina um smælkið sem náði inn frá minni hlutanum í álit meiri hlutans. En það sem ég var að spyrja um var eitt af stóru atriðunum, að aðstoðarmenn séu undanþegnir kælingartíma 5. gr. frumvarpsins. Hv. framsögumaður meiri hlutans veit alveg jafn vel og ég hvað þetta skiptir miklu máli. Hann veit að aðstoðarmenn, eftir að þeir hafa lokið störfum í Stjórnarráðinu, búa að gríðarlegri verkfærakistu. Þeir eru orðnir mjög hæfir í sínu starfi með mikið tengslanet, sem er alveg eðlilegt að þeir nýti sér, en þess þá heldur er eðlilegt að um það gildi einhverjar reglur, eins og er verið að setja með 5. gr. frumvarpsins. Þetta veit ég að þingmaðurinn þekkir jafn vel og ég vegna þess að ég hef verið aðstoðarmaður, svo allt komi fram, og þingmaðurinn hefur unnið við hagsmunagæslu við hlið þeirra sem voru aðstoðarmenn með mér á þeim tíma, mætum mönnum sem sinntu sínu starfi bæði sem aðstoðarmenn og sem hagsmunaverðir með sóma. Er ekki eðlilegt að sá hópur falli hér undir?