150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta þótti mér athyglisvert, raunar mjög upplýsandi, að hv. þingmaður skuli kalla þau atriði sem ég tiltók smælki. Það að ekki sé fortakslaus undanþága frá upplýsingabanni er smælki í huga hv. þingmanns. Það að ekki sé hægt að raða saman gjöfum þannig að það nái vel yfir umrætt hámark er smælki í huga hv. þingmanns. Það að safna skuli frekari upplýsingum en frumvarpið gerði ráð fyrir, smælki. Ég þykist vita, forseti, að hv. þingmanni finnist þetta ekki vera smælki í raun. Það virðist svo vera að minni hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé það sár yfir því að ekki hafi allar athugasemdir hans farið inn í frumvarpið, að ekki bara þurfti sérstaka bókun þar um heldur er allt sem náðist í gegn kallað smælki. Það þykja mér ekki vönduð vinnubrögð. Það segir sig augljóslega sjálft að um það sem ekki fór inn af athugasemdum minni hlutans (Forseti hringir.) náðist ekki samstaða, meiri hlutinn var ekki sammála minni hlutanum með það.