150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, það var vissulega rætt aðeins um í það minnsta eitthvað af því sem hv. þingmaður tiltók hér og þá staðreynd að aðstoðarmenn hafa nýtt sér að geta birt hagsmuni sína opinberlega nú þegar þó að það sé ekki orðið að lögum, þó að það sé valkvætt og þó að það sé ekki að finna í þingskjölum.

Tilefni og nauðsyn lagasetningar. Ég fór í hana í upphafi máls míns hér áðan. Þetta eru vissulega athugasemdir sem komið hafa upp um að við séum ekki með nægilega skráningu hvað þetta varðar.

Eitt af því sem líka var rætt varðandi reynslu er reynsla annarra landa af akkúrat svona: Hvernig er þetta í Bandaríkjunum? svo dæmi sé tekið, þar sem eru býsna strangar reglur um hvernig á að skrá hagsmunaverði sem nálgast kjörna fulltrúa. Hvernig er þetta í Evrópusambandinu? svo annað dæmi sé tekið. Þetta var ekki ítarleg umræða með gögnum og dæmum eða neinu slíku heldur var þetta rætt, m.a. við aðila samtaka sem hafa þurft að skrá sig t.d. gagnvart Evrópusambandinu, sem hagsmunaverði þar.

Ég sé að mér hefur áskotnast hér aukamínúta þannig að …

(Forseti (SJS): Hún er búin.) [Hlátur í þingsal.]

— Guð tekur strax það sem hann gefur.