150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:49]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef tengslanetið, það að menn kynnist fólki í störfum sínum, á að verða til þess að stöðva fólk, setja einhverjar hömlur á það hvar það vinnur seinna, þá bendi ég á að þá þurfa menn að líta til fleiri í Stjórnarráðinu, í ráðuneytunum, heldur en aðstoðarmanna. Fara alveg niður á gólfið til þeirra sem taka raunverulega ákvarðanirnar. Hv. þingmaður nefndi sjálfstæða eftirlitsstofnun. Það er auðvitað eitthvað sem ég held að sé misskilningur líka, að það að hafa sjálfstæða eftirlitsnefnd leysi þetta mál. Þá spyr ég á móti: Hverjir gæta varðanna? Það þarf einhver að gæta að nefndinni líka og sjálfstæði hennar og hagsmunaárekstrum þar.

Ég hef ekki skipt um skoðun frá því að ég undirritaði þennan stjórnarsáttmála um að menn eigi að fara yfir þessar reglur. Ég tel mjög brýnt að fara yfir reglur um hagsmunaskráningu, sérstaklega hagsmunaskráningu dómara, sem ég hafði fyrirhugað að leggja fram frumvarp um, breyttar reglur þar að lútandi, setja þær af því að þær vantar fyrir flesta dómara. (Forseti hringir.) Ég tel fullt tilefni til þess að fara yfir reglur um hagsmunaskráningu en þetta frumvarp mætir ekki nokkrum vanda, telji menn einhvern vanda vera til staðar.