150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir flutningsræðuna. Mér fannst margt mjög áhugavert koma fram í þeirri ræðu, sér í lagi hvað það varðar til hvers við erum að setja reglur sem þessar ef þeim er svo ekki fylgt. Ég hef oft sagt að það sé til lítils að hafa boðorðin 20 ef enginn fáist til að fylgja boðorðunum tíu og þannig get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni hvað þetta viðhorf varðar. Hins vegar er ég aðeins að reyna að átta mig á samspilinu sem hv. þingmaður setur á milli þess að spyrja hvert markmiðið sé með frumvarpinu og hugleiðinga hv. þingmanns um að kannski sé eitthvað að reglunum en ekki fólkinu sem er alltaf að brjóta þær reglur sem hv. þingmaður vísar í.

Mér finnst þetta mjög áhugaverð framsaga og mjög áhugaverð innsýn, að ef ekkert gengur að fylgja reglum þá sé kannski bara enginn tilgangur með reglunum, eða að þá sé eitthvað að reglunum. Þetta er kannski missatt eftir því um hvað er að ræða. Við tökum ekki út reglur um að ekki megi nauðga fólki bara af því að nauðganir halda áfram í samfélaginu. En sumar reglur geta kannski virst svolítið gagnslausar, sér í lagi ef enginn fylgir þeim.

Þetta varð til þess að ég rifjaði upp ákveðið atriði sem ég óskaði eftir skýringum á frá hv. þingmanni þegar hún var hæstv. ráðherra dómsmála. Ég sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf og óskaði eftir upplýsingum um skráningu á símtölum dómsmálaráðherra vegna uppreist æru málsins og það kom fram í svari ráðuneytisins frá 6. október 2017, að símtöl dómsmálaráðherra væru ekki skráð sérstaklega.

Nú gilda reglur, reglugerð og lög, um að símtöl skuli skráð. Er þetta ein af þeim reglum sem eru algerlega gagnslausar? Og hvers vegna?