150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú ekki gefa mér að það sé skrifræði sem við erum að skapa hér, ég tek ekki undir það og tel það ekki áhyggjuefni. Ég tel að það sé mikilvægast í störfum okkar að reyna að stuðla að því að stjórnkerfið virki, að það sé réttlátt, að það starfi á samkvæman og sanngjarnan hátt og sé skilvirkt fyrir almenning og starfi ævinlega í almannaþágu.

Af því að hv. þingmaður vék aðeins að aðstoðarmönnum þá er mikilvægt að það komi fram, sem mér láðist að nefna hér áðan, að ég tel ekki að aðstoðarmenn séu eitthvað gefnari fyrir spillingu en annað fólk. Það er ekki um það að ræða heldur erum við að hugsa hér um að girða fyrir ákveðinn freistnivanda sem er til staðar. Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns minni hluta, hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, eru það fyrst og fremst aðstoðarmenn sem hafa farið út í atvinnulífið, þ.e. farið að vinna sem svokallaðir hagsmunaverðir en síður ráðuneytisstjórar og, svo að ég tali nú svolítið eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen gerði áðan, hvað þá sendiherrar.