151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

um fundarstjórn.

[10:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Margur heldur mig sig. Hér er talað um að þessi dagskrártillaga sé sýndarmennska. Það var eitt sem meiri hlutinn hefði getað gert, sem var að samþykkja tillöguna.

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður verður að tilgreina sakirnar sem hann ber af sér.)

Þær eru að þetta hafi verið sýndarmennska.

Virðulegur forseti. Ég get tekið hér aftur til máls um fundarstjórn forseta ef það er honum frekar að skapi.

(Forseti (SJS): Það er best að hv. þingmaður beri af sér sakirnar.)

Kallað var eftir stuðningi við þetta mál. Það voru smábátasjómenn sem hringdu í okkur, áhyggjufullur yfir framtíð sinni. Það var hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem kallaði eftir stuðningi okkar opinberlega og það er skjalfest staðreynd, virðulegi forseti. Þessi tillaga er til á rituðu máli. Hún er skjalfest staðreynd. Þessi atkvæðagreiðsla er skjalfest staðreynd. Ég skal funda í atvinnuveganefnd eins oft og eins lengi og þarf til að klára þetta mál, virðulegi forseti. Ég hygg að hér sé nóg af þingmönnum sem séu til í það. En nei, það þarf að fara heim. Það þarf að ljúka þingi. (Forseti hringir.) Það þarf að gera það sem fyrst. Það er þetta sem það snýst um, virðulegi forseti. Sýndarmennska.