151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir.

[12:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Erindi mitt er hið sama. Það hefur gerst allnokkrum sinnum að við höfum fengið upplýsingar um að skýrsla sem varðar grundvallarheilbrigðisþjónustu kvenna sé væntanleg, að hún sé væntanleg þennan daginn eða hinn daginn og aldrei kemur skýrslan. Ég velti því fyrir mér hvers vegna svo sé. Ég veit að skýrslan er tilbúin, niðurstöðurnar liggja fyrir, og ég veit að þetta eru svör sem konur vilja heyra. Það er mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram og það er mikilvægt að samtal um niðurstöðurnar fái að eiga sér stað hér inni í þingsal þannig að almenningur fái að heyra um forsendur að baki þessum ákvörðunum heilbrigðisráðherra sem hafa því miður skapað konum óvissu um grundvallarheilbrigðisþjónustu um margra mánaða skeið.