151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

lýðheilsustefna.

645. mál
[20:50]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða lýðheilsustefnu til ársins 2030 sem er nokkuð metnaðarfull. Frumvarpið sjálft fór í samráðsgátt stjórnvalda og þar komu inn níu umsagnir. Einnig var settur á stofn samráðshópur sem fjallaði um helstu markmið stefnunnar og setti þau niður. Síðan kemur frumvarpið hingað inn í þingið og það er kannski það sem mig langar helst til að ræða um hér.

Velferðarnefnd sendi út umsagnarbeiðnir til 118 aðila og 18 aðilar skiluðu inn umsögnum. Síðan héldum við þrjá fundi þar sem þetta mál var á dagskrá ásamt öðrum málum. Það sem ég vil segja með þessu er að mér finnst uppleggið gott en mér finnst við hafa þurft að hafa mun meiri tíma til að vinna þetta nægjanlega vel þannig að við gætum séð aðeins lengra fram í tímann eða jafnvel tekið þetta aðeins meira á dýptina.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að lýðheilsustefnan er nokkuð svipuð heilbrigðisstefnu sem er líka til ársins 2030. Hún er eiginlega mjög svo svipuð, það eru sömu fyrirsagnir. Auðvitað er almennur stuðningur við að við setjum okkur lýðheilsustefnu en samt sem áður hefur á seinni stigum borið á því að ekki hafi verið haft samráð við umsagnaraðila. Þeir aðilar sem komu fyrir nefndina viðruðu þessar áhyggjur sínar. Meiri hlutinn leggur eðlilega áherslu á að samráð verði haft þegar þarf að fara að framkvæma stefnuna.

Það eru ágætismarkmið hérna inni en þó er það kannski einna helst sem vantar að þegar við erum að ræða um þá sem eiga að framkvæma þessa stefnu munu það oftast vera þeir sem eru hvað mest í nærsamfélaginu, þ.e. sveitarfélögin og heilsugæslan. Við vitum að heilsugæslan hefur t.d. nýlega óskað eftir því að fá meira fjármagn til að geta sinnt sinni grunnvinnu, ef við getum sagt sem svo, og það ákall þarf að taka alvarlega. Þannig að það er að mörgu að hyggja. Svo eru það sveitarfélögin sem munu þurfa að framkvæma þessa lýðheilsustefnu ásamt æskulýðsfélögum og fleiri aðilum. Sveitarfélögin munu þurfa að fylgja þessari stefnu eftir eða vera framkvæmdaraðili og munu þar af leiðandi þurfa að bera kostnað af því. Samt sem áður er ekki gefið tækifæri til að viðra þann kostnað hér. Þetta virðist meira eiga að vera þannig að einhver ákveðin áhrif séu metin og kostnaður þá hugsanlega metinn þar á eftir.

Það hallar dálítið á félagslegan þátt í þessari lýðheilsustefnu. Að mínu mati er hún dálítið læknisfræðilega miðuð í staðinn fyrir að taka á félagslegum þáttum. Félagslegir þættir kalla líka á víðtæka samvinnu fjölda aðila, þar með talið íþrótta- og æskulýðsfélaga og svo bara almennings og fjölskyldna. Huga þarf að því að efnahagur er mismunandi og félagsleg staða er mismunandi.

Í nefndarálitinu kemur fram að fjallað hafi verið um þróun aldursskiptingar og fólksfjölda í fyrirsjáanlegri framtíð. Við þurfum að hafa vit á því að fleiri munu eldast og við munum þar af leiðandi þurfa að huga að þeim borgurum. Það þýðir að við þurfum að huga að lýðheilsu á öllum aldursskeiðum.

Einnig er tekið til þeirra þátta sem snúa að fjölbreytileika. Við erum öll mismunandi og hér er talað um kyn, kynvitund, uppruna, málakunnáttu, fötlun, stöðu gagnvart vinnumarkaði o.fl. En mig langar líka aðeins til að minnast á að oft er stór munur á dreifbýli og þéttbýli. Lýðheilsustefnan gengur jú út á að allir hafi sama aðgang að lýðheilsu og lýðheilsustefnan þarf að standa undir því að öllum sé gert það kleift. Mér finnst kannski vanta þann mælikvarða inn í þetta. En við horfum líka til þess að aðgengi sé jafnt, að hvort sem fólk býr í dreifbýli eða í þéttbýli sé það sama undir gagnvart því fólki. Annars er þetta ágætisbyrjun.

Ég vil samt sem áður halda því fram að við hefðum þegið, ég vil alla vega meina það, og það hefði verið betra fyrir okkur að hafa lengri tíma en svo að ræða þetta mál á þremur fundum ásamt fleiri málum sem voru þar undir, miðað við að við erum að setja fram stefnu sem á að gilda allt til ársins 2030.