151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli. Ég vil fyrst af öllu segja að Miðflokkurinn hefur barist gegn þessu máli, bæði á síðasta þingi og núna í vetur, þeirri vegferð sem hæstv. ráðherra hefur leitt gegn hluta sveitarfélaga landsins. Niðurstaðan er hér í formi breytingartillögu meiri hlutans sem hv. framsögumaður meiri hluta hefur greint okkur frá hér í ræðu sinni. Niðurstaðan er ásættanleg og við fögnum því auðvitað fyrst og fremst. Fyrst og fremst fögnum við því í 1. minni hluta að horfið sé frá lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaganna. Það er stórsigur, herra forseti.

Aðferðin sem meiri hluti nefndarinnar ákveður að fara, og er, held ég, gerð í ágætri sátt, er sú sem lýst er í breytingartillögunni sem er mjög flókin, herra forseti, og íþyngjandi. Gert er ráð fyrir því að eftir kosningar, ef sveitarfélag er undir þessu 1.000 íbúa marki, sem ansi mörg sveitarfélög eru, eigi að taka við ákveðið ferli. Það ferli er flókið og íþyngjandi og innan árs á sveitarfélagið að hefja formlegar sameiningarviðræður eða láta vinna álit. Vinnan við þetta álit er ekki einföld vegna þess að þar eru ótal skilyrði og einnig er sett í lögin að ráðherra eigi að koma með leiðbeiningar um þau atriði sem þar eiga að koma fram. Þar er auðvitað hægt að hafa kröfurnar mjög ítarlegar og íþyngjandi fyrir lítil sveitarfélög. Sum sveitarfélög eru mjög lítil, það er alveg rétt, og hafa kannski ekki mikið afl til að vera í skrifstofuvinnu fyrir ráðuneytið til að uppfylla þetta. Ég mæli fyrir því að þetta verði ekki svo gífurlega íþyngjandi að heilt stöðugildi verði kannski bara fyrir þetta. Álitið á að innihalda ýmis atriði. Þar á að meta getu sveitarfélagsins til að sinna lögbundnum verkefnum o.s.frv. og tækifærin sem felast í mögulegum kostum sameiningar. Það er ekkert minnst á kostina við að sameinast ekki, heldur einungis tækifæri sem felast í því að sameinast. En það geta líka verið kostir á hinn veginn o.s.frv.

Síðan á að senda ráðuneytinu það þegar þessi vinna er búin og ráðuneytið á að gefa umsögn, þar er nú einhver vinna. Síðan á að kynna íbúum þetta með einhverjum ákveðnum fullnægjandi hætti, eins og það er orðað í greininni, hvernig sem það verður, það er kannski í reglugerð ráðherra hvernig það verður kynnt. Ef sveitarstjórn ákveður ekki í framhaldi af því að hefja samningaviðræður geta 10% kosningarbærra íbúa óskað eftir atkvæðagreiðslu. Þá fer hún fram innan sex mánaða og ef hún er á þann veg að fara eigi í viðræður þá er niðurstaðan bindandi. Þetta er mjög íþyngjandi ferli fyrir mjög lítil sveitarfélög. Ég bendi á það, herra forseti, að lagðar eru óheyrilegar kröfur á þessi sveitarfélög um málsmeðferð, mikla skýrslugerð, formlegar kröfur um ferlið, sendingar og samráð á margvíslegan hátt. Ég bendi á að þarna eru lagðar miklar kröfur á þessi litlu sveitarfélög við að greina sinn rekstur, greina kosti og galla o.s.frv. Þetta eru ekki kröfur, herra forseti, sem gerðar eru á stærri sveitarfélögin og þó er þar oft víða pottur brotinn eins og dæmin sanna. Þau eiga ekki að fara í þetta ferli en gott og vel, minni sveitarfélögin hafa fallist á að fara þessa leið, skilst mér, og er það vel. En ég er bara að benda á þessa staðreynd.

Þessi fyrirhyggjulausa vegferð hæstv. ráðherra hófst fyrir margt löngu og byggðist á, herra forseti, einhverri ályktun eða samþykkt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem fulltrúafjöldinn fer auðvitað eftir stærð sveitarfélaganna. Í krafti fjöldans gátu stærri sveitarfélögin samþykkt ályktun um að það ætti að sameina og engin sveitarfélög ættu að vera með færri íbúa en 1.000 eða eitthvað slíkt. Í krafti fjöldans átti að þvinga þessi minni sveitarfélög, félaga þeirra á landsþinginu, til að sameinast, gegn þeirra vilja, kannski gegn þörfum þeirra og nauðsyn. Þetta er ankannalegt og það var strax í upphafi, þess vegna nota ég orðið fyrirhyggjulaust, mjög augljóst að það var mjög ósanngjarnt að byggja á því að í krafti fjöldans yrði samþykkt einhvers konar svona ályktun sem ráðherra hlypi á eftir. Þarna birtist fyrirhyggjuleysið, herra forseti. Undanhald hæstv. sveitarstjórnarráðherra í málinu hefur verið viðstöðulítið frá upphafi, frá framlagningu þessa máls á síðasta þingi. Loks með þessari breytingu, sem ég fagna, þegar búið er að reka hæstv. ráðherra út í horn í málinu, eru vopnin lögð niður og niðurstaðan er þessi. Ég vara bara við því að gera of miklar kröfur í þessum málum þegar um þetta er að ræða. Sjálfsákvörðunarrétt minni sveitarfélaga þarf að virða. Þetta er annað af tveimur stjórnsýslustigum í landinu og við verðum að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna.

Ég ætla ekki að fara yfir þessa sögu meira en ég hef þegar gert en 1. minni hluti bendir á að burðir sveitarfélaga til þjónustu eru ekki bundnir við fjölda íbúa. Ef litið er til þeirrar lögbundnu þjónustu sem stendur íbúum hvað næst, t.d. leikskólaþjónustu, má sjá að leikskólavist hefur staðið börnum til boða frá 12 mánaða aldri í fjölmörgum af minni sveitarfélögum landsins. Stærri sveitarfélög á sama svæði hafa alla jafna ekki náð sama þjónustustigi hvað þá þjónustu varðar. Þá eru mörg dæmi þess að minni sveitarfélög sinni félagsþjónustu aldraðra betur en stærri sveitarfélög. Hvert er vandamálið? Lögþvingun? Að mati 1. minni hluta eiga því fullyrðingar um að stækka þurfi sveitarfélög svo að íbúarnir fái viðunandi þjónustu alls ekki við og alls ekki í öllum tilvikum, langt í frá. Því miður má finna einstaka brotalamir í þjónustu sveitarfélaga. Það má finna þær en þær brotalamir eru ekki bundnar eingöngu við smærri sveitarfélög, langt í frá, og það vitum við fullvel, hv. þingheimur.

Fyrsti minni hluti bendir einnig á að almennt er fjárhagsleg staða stærri sveitarfélaga verri en hinna minni þegar miðað er við mælikvarða sveitarstjórnarlaga, þ.e. jafnvægisreglu og skuldareglu sem kveðið er á um í lögunum. Staða sveitarfélaga samkvæmt þeim viðmiðum segir nokkuð um sjálfbærni viðkomandi sveitarfélags. 1. minni hluti telur því að sjálfbærni sveitarfélags verði ekki bundin við stærð þess og nægir í því efni að bera saman fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga og t.d. Reykjavíkurborgar.

Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir því að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skuli sveitarstjórn þess innan árs frá þeim kosningum leitast við að ná markmiðum laganna með aukinni sjálfbærni og tryggja getu sveitarfélags til að annast lögbundin verkefni. Ég hef farið yfir þetta og ætla kannski ekki að lesa þetta álit mikið lengra en vil bara ítreka að þessi fyrirhyggjulausa vegferð hæstv. ráðherra endar loks með þeirri niðurstöðu sem hér er, sem ég fagna mjög, að fallið sé frá lögþvingaðri sameiningu minni sveitarfélaga. Þessari aðför að sveitarstjórnarstiginu er að ljúka. Henni hefur verið hrundið, herra forseti. Það er okkar krafa að minni sveitarfélög hafi sjálfdæmi um sín sameiningarmál og ríkisvaldið hvetji þau og bjóði í þeim tilgangi fjárhagslega aðstoð til sameiningar, það er sjálfsagt. Það er sjálfsagt að hvetja og ýta undir það en þau eiga að hafa sjálfdæmi um sín sameiningarmál. Ég vil ítreka það, herra forseti, hér í lokin að andstaða Miðflokksins í þessu máli hefur orðið til þess að þessi niðurstaða sem ég fagna er að raungerast hér í þingsal.