151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[23:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með öðrum orðum lágmarksíbúafjölda sveitarfélaganna. Með þessu frumvarpi, sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur haft til meðferðar í töluverðan tíma, er lagt til að lögfestar verði reglur sem mæla fyrir um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum, og er það töluverð breyting frá því sem áður var ætlað, þar sem átti að lögbinda lágmarksfjölda sveitarfélaga.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, fór hér ítarlega yfir vinnu nefndarinnar og þau skref sem tekin voru í þeirri vinnu í átt að breytingartillögum sem lúta að því að horfið er frá þessari lögþvingun og þess í stað lagt til að kveðið verði á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga skuli vera 1.000 íbúar. Síðan er farið býsna nákvæmlega yfir það hvernig verður með reglugerð, með skýrum reglum, reynt að tryggja getu sveitarfélaga til að sinna lögbundnum verkefnum þó svo að þau samþykki ekki sameiningu.

Það er fagnaðarefni að það skuli hafa náðst þessi samstaða og komið var til móts við þær tillögur sem starfshópur minni sveitarfélaga sendi nefndinni, þ.e. breytingu á 1. gr. frumvarpsins, sem laut upphaflega að því að lögþvinga lágmarksíbúafjölda sveitarfélag, en það er mjög jákvætt að horfið verði frá því.

Ég skrifa undir þetta meirihlutaálit með fyrirvara. Annar þeirra lýtur að því að mér finnst útfærslan á skyldum sveitarfélaga sem ekki ná lágmarksstærð býsna flókin í framkvæmd. Það hefur svo sem verið farið yfir það hér, þ.e. sveitarstjórn eða sveitarfélagi sem ekki nær lágmarksstærð ber að leitast við að ná markmiðum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu sína til að annast lögbundin verkefni. Til að ná þeim markmiðum getur sveitarstjórn gert annaðhvort; hafið formlegar sameiningarviðræður eða látið vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkosti þess. Síðan er það þessi vegferð sem farið var í með álitið, þ.e. að senda þarf ráðuneyti það til umsagnar, kynna það íbúum sveitarfélagsins, taka síðan formlega afstöðu í sveitarstjórn til þess hvort rétt sé að hefja samningaviðræður, hafa um það tvær umræður. Ef sveitarstjórn ákveður að hafa ekki samningaviðræðurnar geta 10% íbúa sem kosningarrétt hafa í sveitarfélaginu farið fram á almenna bindandi atkvæðagreiðslu. Þetta er sem sagt skylda samkvæmt ákvæðinu sem virkjast við hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Nú er það ekki þannig að ég hafi sérstakar áhyggjur af því að þetta sé of flókið í framkvæmd þannig séð. En ég hef ákveðnar áhyggjur af eftirfylgninni. Við erum enn að tala um mjög mikinn fjölda sveitarfélaga og það getur orðið býsna umfangsmikið fyrir ráðuneytið að fylgjast með þessu. Ég vildi bara leggja áherslu á að það þarf að tryggja að þessu verði fylgt eftir og það verði endurskoðað hvort framkvæmdin á þessu virki. Af því að þó svo að horfið hafi verið frá þessari lögþvingun, sem betur fer — og aftur er það jákvætt að þarna var tekið tillit til þeirra niðurstaðna sem starfshópur minni sveitarfélaga komst að og þessi breyting, þetta meirihlutaálit er lagt fram í sátt þar að lútandi og er eins og best verður á kosið — þá breytir það ekki þeirri stóru mynd að hún er sú framtíðarsýn sem lagt er af stað með hér. Ég er fyllilega sammála því að við þurfum að fækka sveitarfélögum og efla þannig þau sveitarfélög sem eru til staðar og þar með sveitarstjórnarstigið í heild. Það er a.m.k. mín sýn og hún endurspeglast í þessu áliti meiri hlutans. Fyrirvari minn lýtur sem sagt að því að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að við höfum gert þetta svo flókið að eftirfylgnin, og yfirsýnin þar af leiðandi, verði of erfið. Það er þá okkar að fylgja því eftir.

Síðan var ég líka með fyrirvara um annað sem er í stóru myndinni í þessu máli en er töluvert umfangsminna. Það er það ákvæði sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins, um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarfélaga. Meiri hlutinn leggur þar vissulega til jákvæða breytingu þannig að mælt sé fyrir um heimild sveitarstjórnarmanna til að taka þátt með rafrænum hætti í fundum sveitarstjórnar og nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins. En það er sem sagt gengið út frá því í frumvarpinu að þetta leyfi til fjarfunda sé þess eðlis að almenna reglan sé sú að sveitarstjórnarmenn séu innan viðkomandi sveitarfélags ef þeir eiga að fá leyfi til að taka þátt í fundum í gegnum fjarfundabúnað eða með rafrænum hætti eða vera staddir á vegum sveitarfélagsins utan þess.

Þetta þykir mér óþarfa forsjárhyggja, verð ég að segja. Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að þarna vegast á sjónarmið um að nýta tæknina til hins ýtrasta og hins vegar þau að sveitarstjórnarfulltrúar fái frí í fríi, og síðan mögulega aðkoma varamanna og annarra að vinnunni. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti þessum sjónarmiðum, sannarlega ekki. En ég hefði talið að lausnin væri sú að sleppa því að njörva þetta svona niður í lögin sjálf, að negla þessa forsjárhyggju niður þar, og skilja það síðan eftir hjá einstökum sveitarfélögum að setja sér vinnureglur. Mér finnst allt að því skondið í þessari umræðu hér, þar sem gengið hefur verið býsna langt í að breyta frumvarpi þrátt fyrir að a.m.k. meiri hlutinn sé sammála um endamarkmiðið, að sveitarfélög sameinist þar sem kostur er — farin er sú leið að hætta við lögþvingunina og láta það í hendur þeirra, allt byggt á eðlilegum sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga — að við skulum síðan negla niður í lög hvernig hvert einasta sveitarfélag eigi að haga sínum fjarfundum. Það er eitthvað sérkennilegt við þessa nálgun að mínu mati. Það er hinn fyrirvarinn sem ég set við þetta mál, en hvorugur er það stór að ég hafni því að vera með á álitinu. Ég er sannarlega þar, en ég vildi koma báðum þessum fyrirvörum á framfæri.

Svo langar mig aðeins í lokin að fagna því að tvö stór mál sem verið hafa á dagskrá þingsins, með ólíkum hætti þó, töluvert stór mál, annars vegar er það sem fjallar um sameiningu sveitarfélaga og anginn sem við erum að fjalla um núna, og hins vegar er það frumvarp um hálendisþjóðgarð, hafa kallað á miklar umræður um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sjálfstæði sveitarfélaga, vissulega hvort með sínum hætti og örlög þessara tveggja mála eru ólík. En það breytir því ekki að í báðum þessum málum, í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar og í umræðum hér í þingsal, hefur kristallast mjög skýr vilji þingsins til að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga hvar sem er á landinu, m.a. í skipulagsmálum, þannig að ég tel að við höfum slegið ákveðinn tón þar og menn þurfi ekki að velkjast í nokkrum vafa um það lengur hver skýr vilji góðs meiri hluta þingsins er í þeim málum. Ég segi þetta vegna þess að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa komið upp ýmis mál, stór og smá, þar sem ástæða hefur verið til að hafa ákveðnar áhyggjur af því á hvaða vegferð ríkisvaldið eða löggjafinn er þegar kemur að þessum sjálfsákvörðunarrétti. Ég tel að þeim vafa hafi hreinlega verið eytt hér og nú og því hljóta menn að fagna, hvar sem þeir eru.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, og lýk hér máli mínu.