151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við megum ekki umgangast þessi lög af léttúð. Ég skal lesa það sem segir í nefndarálitinu, þessu er velt upp hérna: „Tillaga frumvarpsins felur í sér að rétturinn til að greiða atkvæði vegi þyngra.“ Hv. þingmaður hefur endurtekið þetta. Ég heyri það. En hugsanleg áhrif aðstoðarmanns á það hvernig kjósandi ver atkvæði sínu, hann vegur þyngra en rétturinn til að greiða atkvæði. Og hvað segir svo? Athugið nú: „Ákveðin skilyrði eru þó sett í ákvæðinu.“ Hvar eru þessi skilyrði? Ég sé þau ekki. Þau eru ekki þarna. Ef það er skilyrði að það eigi að rita eitthvað í bók — er það skilyrði? Hvers lags bull er þetta, hv. þingmaður? Þetta er léttúð.

Ég hef unnið við kosningar í 20 ár á öllum köntum, sem aðstoðarmaður, sem kjörstjóri, í kjörstjórn, í yfirkjörstjórn, í heimahúsum. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Af hverju er ekki einfaldlega hægt að taka upp öryggisatriðin úr gamla ákvæðinu þó ekki væri nema að kjósandi myndi óska eftir aðstoð og aðstoðarmanni í einrúmi með kjörstjóra eða kjörstjórn, þó ekki væri nema bara það? En að opna þetta á alla kjósendur, að allir geti komið fyrir kjörstjóra eða kjörstjórn með aðstoðarmann, allir, hver sem er — kjósandi þarf ekki að skýra neitt frá og þarf ekki að biðja um neitt, hann bara kemur með aðstoðarmann, labbar inn og kýs. Þarna er stórkostleg hætta á mismunun, hv. þingmaður. Við verðum kannski ekkert vör við það. En þessi hætta er fyrir hendi og ég hef margoft lent í þessu, margoft. (Forseti hringir.) Og þessi réttur til að kjósa, hvar endar hann, hv. þingmaður? Hvar endar hann?