153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

skerðing almannatrygginga og frestun launahækkana.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eftir tvo daga, 1. júní nk., verður skelfingardagurinn mikli. Þá verða 50.000 lífeyrislaunþegar sem lifa í almannatryggingakerfinu skertir, að meðaltali um 164.000 kr. Á sama tíma eru laun ráðherra og þingmanna að hækka um tugi ef ekki hundruð þúsunda króna. Skerðingarnar, bara skerðingarnar og hækkun þeirra frá 2020–2022 eru 13 milljarðar kr. á sama tíma og þessi ríkisstjórn hælir sér fyrir það að hafa aldrei sett annað eins af peningum inn í kerfið sem rennur í gegnum vasa þeirra sem eiga að fá þetta og aftur í vasa ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga í formi skatta og skerðinga. Á sama tíma horfir ríkisstjórnin í gaupnir sér og það á meðan fátækt fólk rær lífróður og bíður eftir réttlætinu.

Ný könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýnir að stór hluti öryrkja býr við slæma heilsu, sækir ekki heilbrigðisþjónustu, sleppir sjúkraþjálfun vegna kostnaðar. Fatlað fólk og eldra fólk er sá hópur sem þarf oftast að fara á heilsugæsluna, til sjúkraþjálfara, til sérgreinalækna, sálfræðinga og hefur ekki efni á því og þá ekki heldur á að greiða fyrir læknisþjónustu, hvað þá fyrir lyf. Það þarf að neita sér um að taka út lyfin vegna of hás kostnaðar.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er ekki ríkisstjórnin tilbúin til þess að fresta öllum launahækkunum æðstu embættismanna þjóðarinnar þangað til við erum búin að leiðrétta laun þeirra sem verst hafa það hérna og ganga frá kjarasamningum láglaunafólks sem er að berjast fyrir sínum kjörum? Þá getur það ekki verið eðlilegt að við séum að fá tugum meira, tvöfalt, þrefalt, fjórfalt hærra en þeir sem voru á lægstu launum hafa fengið í launahækkanir.