Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

ný sorpbrennslustöð.

312. mál
[15:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að gleðja hæstv. ráðherra með því að endurtaka enn og aftur hugmyndir mínar og framtíðarsýn í sorpmálum þegar kemur að þessum þætti því ég held að ríkið eigi að taka þennan málaflokk yfir og ég held að sveitarfélögin myndu glöð skila þessu yfir til ríkisins. Eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir í inngangi sínum er búið að vinna töluvert í því og velta fyrir sér hvar sorpbrennslustöð getur verið. Við eigum fjöldann allan af svona skýrslum. Við eigum fjöldann allan af skýrslum um að það er þörf á öðrum urðunarstað, þörf á gas- og jarðgerðarstöð, sem hefur nýlega risið hérna á höfuðborgarsvæðinu, og þörf fyrir eina til tvær brennslur í viðbót á landinu. Við verðum að horfa heildstætt á þennan málaflokk og horfa á þörfina á landinu öllu og eins og sveitarfélögin eru uppsett, þó að þau vinni í gegnum sorpsamlög, þá er bara ekki skynsamlegt að vinna þetta með þessum hætti. Við þurfum að taka heildstæðar ákvarðanir fyrir landið allt og ég held að það færi betur á því að hæstv. ráðherra fengi þetta verkefni í fangið.