Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

ný sorpbrennslustöð.

312. mál
[15:50]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. fyrirspyrjanda. Það er margt sem mælir með því að byggð verði upp brennsla eða mögulega brennslur á landinu en við þurfum líka að hafa í huga fyrri reynslu af sorpbrennslu á Íslandi þar sem voru byggðar ansi margar brennslur og jafnvel of litlar sem höfðu þar af leiðandi ekki nægt sorpmagn til að halda uppi hita og þar með umhverfisvörnum. En í allri umræðu um sorpmál hljótum við líka að setja í forgang að innleiða hringrásarhagkerfið og gæta að því að einungis úrgangur sem á sér ekki annan farveg endi í fyrirhugaðri sorpbrennslu. Í því samhengi má nefna að nýjustu skýrslur — talandi um skýrslur, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir — gera ekki ráð fyrir að lífrænn úrgangur, þar með talið ABP, fari í brennslu enda hentar blautur lífrænn úrgangur einkar illa sem brennsluefni og því þarf að horfa sérstaklega til meðhöndlunar dýraleifa og brennsla ekki góð lausn í þeim vanda. Í því samhengi vil ég nýta tækifærið hér og vekja athygli á lausn sem unnið er að í tengslum við uppbyggingu líforkugarða í Eyjafirði en þar er einmitt verið að horfa til annarrar vinnslu á áhættuúrgangi en brennslu, vinnslu sem mun uppfylla Evrópuregluverkið og er í samræmi við það sem nágrannaþjóðir okkar gera. (Forseti hringir.) Mig langar að nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann kannist við þetta verkefni og hvernig honum lítist á það.