154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. framtíðarn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir skýrslu framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023. Meginhlutverk framtíðarnefndar er að fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni með áherslu á tæknibreytingar og sjálfvirknivæðingu sem og langtímabreytingar á umgengni við náttúruna og lýðfræðilegar breytingar. Þetta er fyrsta skýrslan af störfum framtíðarnefndar sem er flutt hér í þingsal og mjög ánægjulegt og spennandi að fá að mæla fyrir þessari skýrslu.

Framtíðarnefndinni er ætlað að skoða mismunandi sviðsmyndir og nota verkfæri framtíðarfræða til þess. Samspil stjórnmála, samfélagsbreytinga, umhverfismála og gríðarlegrar tækniþróunar hefur leitt til djúpstæðra breytinga í öllum heiminum og skapað mikla óvissu. Sviðsmyndagreiningar eru til þess fallnar í síbreytilegum heimi að varpa ljósi á mismunandi framtíðir og auðvelda þannig ákvarðanatökur.

Á heimsþingi framtíðarnefndar þjóðþinga, sem haldið var í Úrúgvæ á síðasta ári, var lögð mikil áhersla á framsýna stjórnsýslu hjá þjóðþingum til að takast á við framtíðaráskoranir. Framsýnir stjórnarhættir taka einmitt mið af framtíðarfræðum.

Framtíðarnefnd Alþingis er ekki hefðbundin fastanefnd sem fær þingmál til umfjöllunar. Framtíðarnefnd hefur í störfum sínum m.a. lagt áherslu á samtal við sérfræðinga og hagaðila, vinnustofur, sviðsmyndafundi og málstofur. Málstofum hefur verið streymt og þátttakendur geta tekið þátt.

Undanfarið hefur framtíðarnefnd beint sjónum sérstaklega að gervigreind og framtíð lýðræðis þar sem gervigreind er í æ ríkara mæli samofin samfélögunum okkar. Gervigreind þekkir engin landamæri og því er mikilvægt að þjóðir heims taki höndum saman og setji alþjóðlegar reglur sem byggja á lýðræðislegum ferlum, sem byggja á valddreifingu, gagnsæi og aðgengileika gagna og tækninnar. Það skiptir sköpum að tæknin þjóni samfélagslegum og lýðræðislegum hagsmunum en ekki hagsmunum einokunar.

Á heimsþingi framtíðarnefnda þjóðþinga, sem haldið var í Úrúgvæ á síðasta ári, var sérstaklega fjallað um áhrif gervigreindar á lýðræðið í heiminum og í yfirlýsingu heimsþingsins var skorað á Sameinuðu þjóðirnar að þróa sáttmála fyrir þjóðir heims varðandi gervigreind svo að hægt yrði að standa vörð um mannréttindi og öryggi mannkyns.

Framtíðarnefnd finnska þjóðþingsins er að miklu leyti fyrirmynd framtíðarnefndar Alþingis og hefur hún víðtækt verksvið og fjármagn til að sinna þeim verkefnum sem hún vill leggja áherslu á hverju sinni. Í upphafi kjörtímabils stofnar hún til hugveitu þar sem fjölmargir sérfræðingar ræða það sem þeir telja mikilvægustu málefni framtíðarinnar og nefndin tekur í kjölfarið ákvörðun um þau málefni sem hún ætlar að fjalla um. Finnska framtíðarnefndin leggur áherslu á samstarf við sérfræðinga, stofnanir og ungt fólk. Opnir fundir, kynningar og útgáfa skýrslna eykur á gagnsæi í störfum nefndarinnar. Undanfarin ár hefur megináhersla verið á sviðsmyndagreiningar er varða tækniþróun, sjálfbærni og skautun í samfélaginu.

Mikil gerjun er í gangi í alþjóðasamfélaginu, bæði hjá þingum, stjórnvöldum og alþjóðastofnunum, að nota framsýna stjórnarhætti og vil ég minna á að framtíðarnefndir þjóðþinga gegna veigamiklu hlutverki hvað varðar innleiðingu framsýnna stjórnarhátta í stjórnsýslu landa og það að hvetja til ákvarðanatöku sem byggist á framtíðarfræði.

Forseti. Mig langar aðeins til þess að fara í stuttu máli yfir störf nefndarinnar árin 2022 og 2023. Nefndin fór m.a. í kynnisferð til Finnlands til að kynna sér starf framtíðarnefndar finnska þingsins en fyrirkomulag Finna er ótrúlega spennandi. Hluti af þessari heimsókn var einnig að funda í finnska forsætisráðuneytinu til að kynna okkur framtíðarskýrslu ríkisstjórnar Finnlands en ríkisstjórnin þar skilar framtíðarskýrslu einu sinni á kjörtímabili sem fer til umfjöllunar í framtíðarnefnd finnska þingsins. Í þeirri vinnu er lögð áhersla á greiningu á þeim drifkröftum sem eru mikilvægastir til framtíðar og lögð áhersla á víðtækt samstarf við sérfræðinga, sveitarfélög, félagasamtök og almenna borgara við gerð skýrslunnar og á sýn þeirra á framtíðina. Þetta er ótrúlega spennandi verkefni. Framtíðarhópur finnsku ríkisstjórnarinnar er stjórnvöldum til ráðgjafar við vinnslu framtíðarskýrslunnar en hann samanstendur af helstu sérfræðingum á sviði framtíðarfræða og framtíðarrannsókna. Hlutverk framtíðarhópsins er að tengja ákvarðanatöku í ráðuneytum við framtíðarfræði með framsýnni stjórnsýslu.

Í kjölfar heimsóknarinnar til Finnlands sendi þáverandi formaður framtíðarnefndar forsætisráðherra minnisblað með hugmyndum um samstarf framkvæmdarvalds og löggjafarvalds á Íslandi í framtíðarmálum. Þar var vísað til þess samstarfs sem er á milli finnsku ríkisstjórnarinnar og finnska þingsins og hvatt til þess að sambærilegt samstarf yrði skoðað hér á landi sem gæti stýrt ákvarðanatökum sem byggjast á framtíðarfræðum.

Framtíðarnefndin hóf vinnu við ýmis fróðleg og mikilvæg verkefni á þessum tveimur árum. Má þar nefna vinnu við gerð sviðsmynda um græn umskipti þar sem unnið var með drifkraftana tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna og sjálfvirknivæðingu sem nefndinni er ætlað að skoða samkvæmt lögum. Nefndin hóf einnig á þessu tímabili vítt samtal við hina ýmsu sérfræðinga um m.a. fjórðu iðnbyltinguna, um stöðu framtíðarfræða, gervigreind og þróun lýðræðis. Það var farið á heimsþing framtíðarnefnda í Helsinki og í Úrúgvæ og farið af stað með málstofur undir yfirskriftinni Gervigreind og lýðræði, eins og ég fór aðeins yfir áðan.

Forseti. Stöðugleiki og hægar breytingar einkenndu samfélög fortíðar en nú á dögum þurfa þau að geta aðlagast hröðum breytingum og vera umfram allt sveigjanleg. Framtíðin er ekki línulegt fall af fortíðinni og veldisvöxtur einkennir tæknibreytingar sem eru einn helsti drifkraftur 21. aldarinnar. Í því ljósi vil ég leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að festa íslensku framtíðarnefndina í sessi og auka vægi hennar á Alþingi. Í þeim síbreytilega heimi sem við lifum í má segja að hugmyndafræði framtíðarfræða, að skoða óvissuþætti og drifkrafta framtíðar og hvað gerist ef þeir þróast í mismunandi áttir, sé ákveðið haldreipi til að undirbúa okkur fyrir allt það óvænta sem bíður okkar í framtíðinni. Framtíðarnefndin hefur þegar sent beiðni þess efnis til forseta og forsætisnefndar þingsins að festa framtíðarnefndina í sessi og finna henni fastan fundartíma og ég vona svo innilega að farsæl lausn verði fundin og við munum sjá íslensku framtíðarnefndina blómstra eins og þá finnsku og eiga stærri sess í störfum þingsins og ríkisstjórna á næstu árum og áratugum.