154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni velferðarnefndar, Halldóru Mogensen, kærlega fyrir ræðuna, sem ég tek fyllilega undir, og þakka henni gott samstarf. Það hefur auðvitað borið dálítið á því að fólk verði hvumsa þegar þessa nefnd ber á góma — hún er ný — og spurt er, jafnvel hérna innan húss: Hvað eruð þið eiginlega að gera? Hv. þingmaður svaraði því ágætlega en mig langar að setja þetta aðeins í samhengi.

Við erum nefnilega stödd á tímum sem eru eðlisólíkir nokkru tímabili í sögu mannkynsins. Lengst af var þróunin á öllum sviðum nokkuð hæg og línuleg. Þetta átti við um allt frá getu til að framleiða vopn, næringarinntöku manna að meðaltali og siðvitsins. Þetta breyttist allt seint á 18. öldinni þegar við fórum að nýta okkur gufuaflið og verksmiðjur urðu til, framleiðslan stórjókst og fólk flutti úr sveitum í borgir í stórum stíl. Það má segja að þarna hafi vélaraflið að miklu leyti tekið við af vöðvaaflinu. Þessi þróun hélt svo linnulaust áfram, m.a. með þróun rafmagnsins og enn hraðari breytingum í borgarmyndum sem ýttu svo undir nauðsyn þess að leysa nýjar áskoranir, svo sem ýmiss konar félagsleg vandamál sem voru samfara því að fólk bjó mjög þétt saman. Meðal lausna sem urðu til þá voru skólar og síðan almenn skólaganga en einnig þróun lýðræðisins, kosningarrétturinn, fyrst auðvitað ákveðinna hópa og síðan í byrjun 20. aldarinnar allra. Og nú er þetta meginreglan, á Vesturlöndum a.m.k.

Strax á þessu tímabili var þróun tækninnar farin að breytast úr því að vera línuleg og í átt að einhverju sem við getum kallað veldisvöxt. Því hefur verið spáð eiginlega alla áratugi 20. aldarinnar að einhvern tímann myndi þessi kúrfa fletjast út og þá færi að hægja á þessum breytingum en þá hefur sífellt komið til ný tækni sem kemur okkur í opna skjöldu að einhverju leyti. Þessi þróun er áfram í veldisvexti og enn hraðar heldur en nokkurn tímann áður, annars vegar með stafrænni tækni og nú síðast því sem við köllum gervigreind.

Reynslan sýnir okkur vissulega allt frá iðnbyltingunni að þessi tæknibylting leiðir til aukinna lífskjara. Hún getur hins vegar líka í einhverjum tilfellum leitt til misskiptingar í meira mæli og við sjáum auðvitað að hún hefur sannarlega leitt til þess að við höfum gengið of freklega á náttúruna og loftslagið. Það er því að ýmsu að huga í tengslum við þetta.

Þessi tækni hefur auðvitað gjörbreytt öllum okkar veruleika og hugmyndir okkar um fjarlægðir eða landamæri og aðra slíka mannanna hluti — eins og landamæri, fjarlægðir eru það svo sem ekki — hafa gjörbreyst frá því að við gátum framleitt vöru, við skulum segja bara blómavasa, yfir í það að við gátum farið að verksmiðjuframleiða blómavasa og búa til tugi ef ekki hundruð á miklu styttri tíma en áður, og svo hins vegar þessa stafrænu vöru sem eru ekki fýsísk og efnisleg og getur auðveldlega flust milli staða á miklu skemmri tíma með miklu minni tilkostnaði og miklu minna sótspori heldur en hefðbundinn hlutur. Þessi tækni er t.d. alveg gríðarlega æskileg og gefur mikla möguleika fyrir fámenna þjóð í risastóru landi sem er mjög langt frá mörkuðum. Íslendingar hafa mjög mikil tækifæri í því að nýta sér meira hugvit í sinni framleiðni heldur en þessari hefðbundnu vinnslu náttúruauðlinda þótt það sé auðvitað áfram mjög mikilvægt. Kosturinn við hugvitið er að ólíkt öðrum náttúruauðlindum þá gengur ekki á það. Það vex eftir því sem þú notar það meira. Þannig að þetta er í öllum skilningi dálítið skemmtilegur hlutur.

Núna stöndum við hins vegar frammi fyrir því að það eru að verða enn meiri breytingar og enn stærri breytingar og enn hraðari breytingar. Ef við skiptum þeim bara gróft í tvennt þá erum við annars vegar að tala um stafrænu væðinguna, sjálfvirknivæðingu, og hins vegar gervigreindina. Og nú erum við í þeim sporum að tæknin leysir ekki eingöngu vöðvaaflið af hólmi heldur heilann og hugsun mannsins, að einhverju marki a.m.k. Á sama tíma hefur siðvitið ekkert vaxið nema bara línulega áfram og núna má eiginlega segja að við séum í stöðugum eltingaleik við þessa tækni sem getur verið svo dásamlegt og hefur reynst okkur vel, ef vel er að verki staðið a.m.k., en getur líka komið okkur illa í koll ef við gáum ekki á okkur.

Ég hef stundum hugsað um það hvort hver króna sem Alþingi veitir í nýsköpun á sviði tækni ætti ekki að leiða til þess að önnur króna sé sett í háskólana, í hugvísindasviðin, í siðfræði, í heimspeki, vegna þess að þessir hlutir þurfa að talast við og þurfa að vera nokkuð samstiga, af því að það er algerlega augljóst að þessi tækni mun hafa áhrif á störf framtíðarinnar. Með hvaða hætti vitum við ekki; einhver störf hverfa, önnur breytast og ný verða til. Það getur vel verið að það verði ekki þörf fyrir okkur á vinnumarkaðnum með þeim hætti sem hefur verið áður og kannski þurfum við að fara að skattleggja framleiðslueiningu eða róbot frekar en vinnustundir. Það þarf ekki að vera slæmt. Það getur verið stórkostlegt ef við bara pössum upp á að verðmæti sem verða til verði til skiptanna fyrir alla og frítími aukist og möguleiki til að sinna börnum og fjölskyldu verði meiri. Hins vegar er það sem við höfum verið að sjá á síðustu árum, þessi áhrif sem gervigreindin getur haft til ills á lýðræði. Við höfum séð tvennar, þrennar, fernar kosningar í stórum ríkjum þar sem tækninni hefur verið misbeitt alveg stórkostlega.

En af hverju erum við að standa í því að leggja til að hér verði sett á fót framtíðarnefnd? Jú, við Íslendingar erum gamalt veiðimannasamfélag og við erum vertíðarfólk. Okkur er tamt að róa þegar gefur og við erum æðrulaus þegar viðrar ekki til róðrar. En smátt og smátt höfum við áttað okkur á því að við verðum að fara að temja okkur meiri langtímahugsun og við höfum auðvitað verið að gera það. Lög um ríkisfjármál og ýmislegt annað bendir til þess að við viljum sjá fram í tímann. Við erum hins vegar enn þá of oft allt of föst í viðbragðspólitík, af því við erum góð í að takast á við vandamál sem koma upp í staðinn fyrir að reyna að komast fyrir vaðið og reyna að koma í veg fyrir vandann.

Þessi nefnd á, eins og hv. þingmaður talaði um, að kortleggja þær áskoranir og tækifæri sem felast í ýmsu í þjóðlífinu. Flestar þjóðir eru nú þegar farnar að huga mjög vel að þessu, annaðhvort með framtíðarnefndum eða þá, þessi stærstu ríki, bara inni í öllum ráðuneytum. Það er alveg ljóst að sú þekking og þær upplýsingar sem verða til í þessari nefnd verða að renna þvert á öll ráðuneyti, alveg eins og við gerum t.d., eða eigum að gera a.m.k., í jafnréttismálum og í loftslagsmálum.

Þess vegna ætla ég að ljúka þessu á því að taka heils hugar undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, formanni nefndarinnar, um að það er nauðsynlegt, þó að einhverjum kunni að virðast viðfangsefnið framandi, að festa þessa nefnd í sessi, finna henni fundartíma og nýta reynslu annarra þjóða og nýta þá möguleika sem felast í tækninni og nýta þá kosti að hugsa nú einu sinni langt, langt fram í tímann.