135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að eftirlaunalögunum. Ég verð að segja að mér finnst þetta dapurleg stund, þetta er ömurleg tilraun til kattarþvottar. Mánuðum saman hefur verið legið á frumvarpi um þessi lög frá hv. varaþingmanni Valgerði Bjarnadóttur og fleiri alþingismönnum. Það frumvarp gerir ráð fyrir að sérréttindi alþingismanna og embættismanna verði afnumin og þessi hópur færður undir sömu lífeyriskjör og starfsmenn ríkisins almennt búa við. (Gripið fram í: Sem eru forréttindi.) Þessu er ég fylgjandi, ég er fylgjandi því að þetta verði gert. Ég skil ekki hvað það er sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra eru að leggja til. Eru menn að leggja til vinnu hér í sumar þar sem menn setjist yfir það hvernig hægt verði að halda í einhver af þessum sérréttindum?

Hvers vegna fáum við ekki að greiða atkvæði um það frumvarp sem liggur fyrir þinginu? (Gripið fram í: … forréttindi.) (Gripið fram í.) Ég ætla bara að lýsa því yfir að þegar frumvarp kemur um þetta efni mun ég flytja breytingartillögu sem gerir ráð fyrir… (Gripið fram í: áður en þú sérð það?) já, áður en ég sé það, af því að ég veit að verið er að gera tilraun til þess að blekkja þjóðina. Ef mönnum væri alvara að afnema þessi sérréttindi væri frumvarp hv. varaþingmanns Valgerðar Bjarnadóttur lagt fyrir þingið og okkur leyft að greiða um það atkvæði, (Gripið fram í: Þú talar fyrir…) það er ósköp einfalt mál.

Nei, það á að setjast yfir það í sumar til að gera tilraun til þess að halda í einhver þessara sérréttinda. Ég hef hlustað á orð hæstv. utanríkisráðherra um hverju á að breyta í frumvarpinu að hennar mati, það eru aðeins fáein atriði. Ekki á að taka á misréttinu og sérréttindunum í heild sinni. Þetta er ömurlegur kattarþvottur eða tilraun til hans og ég frábið mér svona vinnubrögð. Og þegar sagt er, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði, að gerð verði tilraun til ná sátt milli þingflokkanna — hvernig væri að Alþingi reyndi að ná sátt við þjóðina? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … forréttindamaður.)