135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:55]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það veldur mér vonbrigðum að frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald skuli koma samkvæmt nefndaráliti sem liggur fyrir frá efnahags- og skattanefnd í óbreyttu formi þar sem miðað er við að fella eigi niður stimpilgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð og ekki neins annars. Ég hefði vænst þess að nefndin sem fjallaði um málið hefði tekið tillit til þeirra vandamála sem upp geta komið, sérstaklega varðandi þinglýsingu og líka hvernig ástand er í þjóðfélaginu. Það hefði að mínu viti verið eðlilegast að miða við að fella niður stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Og vegna hvers? Jú, m.a. vegna þess að það er í fyrsta lagi búið að lofa því að stimpilgjald verði fellt niður á kjörtímabilinu. Þá er spurning um hvort sérstök ástæða sé til að gera það við þær aðstæður sem nú eru. Og miðað við þær upplýsingar sem við höfum um fasteignamarkaðinn, um það sem þar er að gerast og útlitið fram undan, er tvímælalaust full ástæða til að reyna að gera það sem mögulegt er til að blása lífi í þá markaðsstarfsemi. Algjör niðurfelling stimpilgjalds vegna kaupa á íbúðarhúsnæði væri leið í þá átt.

Ég velti fyrir mér ákveðnum hlutum sem fram koma í nefndarálitinu og það kemur mér satt að segja á óvart, sérstaklega vegna þeirrar gagnrýni sem höfð var uppi þegar frumvarpið var lagt fram, að sagt var að þetta yrði verulegt …

(Forseti (EMS): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gefa hv. þingmanni sem í ræðustól er hljóð til að hann geti haldið áfram máli sínu.)

Vegna þeirra umræðna sem urðu við 1. umr. um frumvarpið þar sem sérstaklega var vakin athygli á því að það gæti verið umhendis fyrir þá sem eiga að sjá um þinglýsingu á kaupsamningum að hafa eftirlit með því hverjir eiga rétt á niðurfellingu stimpilgjalds og hverjir ekki, þá kemur mér það satt að segja verulega á óvart að sjá að aðeins hefur borist umsögn eins sýslumanns. Nú liggur fyrir að það er verkefni sýslumanna að sjá um þetta og á þeirra ábyrgð að framkvæmd laganna verði með þeim hætti sem ætlast er til samkvæmt frumvarpinu. Það er aðeins einn sýslumaður sem gefur umsögn. Ekki virðist sýslumaðurinn í Reykjavík, þar sem flestum kaupsamningum er þinglýst, hafa verið kallaður til. Eini sýslumaðurinn sem gefur umsögn er sýslumaðurinn í Hafnarfirði en hvergi er vikið að því hvort haft hafi verið samband við aðra gæsluaðila og hagsmunaaðila sem þarna koma að. Verður lögð á þá mjög þung ábyrgð ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt.

Ég vil taka það fram að ég tel mjög mikilvægt að við náum sem fyrst niður stimpilgjöldum. Helst hefði ég viljað afnema þau með öllu strax. Þetta er óréttlátur skattur eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur raunar tekið fram og ýmsir aðrir úr ríkisstjórninni. Og ef um óréttláta skattheimtu er að ræða, af hverju þá ekki að afnema hana? Af hverju eigum við að viðhalda henni eða lækka hana í þrepum með þeim harmkvælum sem verða óhjákvæmilega með frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra um breytingu á lögum um stimpilgjald? Í sjálfu sér get ég ekki annað sagt en að maður tekur þó því sem möguleiki er á til að létta á þeirri gjaldheimtu sem lögð er á íbúðakaupendur þótt frumvarpið sé meingallað eins og ég hef vikið að. Það á sem sé eingöngu að ná til þeirra sem eru að kaupa íbúð í fyrsta skipti.

Vikið er að því að kaupandi má ekki áður hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar. Hann þarf að vera skráður fyrir minnst helmingseignarhlut í hinni keyptu íbúð og þarf fjármögnun með útgáfu skuldabréfs og tryggingabréfs að vera fyrir hendi til þess að niðurfelling á stimpilgjöldum nái fram að ganga. Síðan er fjallað um að frumvarpið geri ráð fyrir að niðurfelling gjaldsins ráðist jafnframt af eigendasögu maka eða sambúðaraðila kaupenda. Ég hlýt að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal, sem er formaður nefndarinnar sem hafði með þetta frumvarp að gera, hvað hér er átt við. Frumvarpið gerir ráð fyrir að niðurfelling gjaldsins ráðist jafnframt af eigendasögu maka eða sambúðaraðila kaupanda. Hvað er ef eigendasaga maka eða sambúðaraðila er sú að viðkomandi á margar eignir eða hefur átt margar eignir, staðið í margvíslegum eignaskiptum? Hvaða máli skiptir það? Breytir það einhverju? Ef það breytir ekki neinu af hverju er þetta þá orðað með þessum hætti í nefndarálitinu? Frumvarpið gerir ráð fyrir að niðurfelling gjaldsins ráðist jafnframt af eigendasögu maka eða sambúðaraðila kaupanda. Hvað ef maki eða sambúðaraðili kaupanda er t.d. nýkominn til sögunnar, þ.e. ef fólk hefur tekið saman eða gift sig skömmu áður en kaup á fyrstu íbúð eiga sér stað? Þetta er óskiljanlegt orðalag sem ég óska eftir að formaður efnahags- og skattanefndar geri grein fyrir og skýri hverju það varðar ef eigendasaga maka eða sambúðaraðila er með þessum hætti eða hinum.

Í annan stað er vikið að því að komið hefur fram á fundum nefndarinnar að framkvæmd niðurfellingar yrði almennt á ábyrgð sýslumanna. Þá hlýt ég að spyrja: Með hvaða hætti á slík ábyrgð að vera? Á það að vera almenn ábyrgð, almenn sakarábyrgð eða ábyrgð með einhverjum öðrum hætti? Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum viðurlögum eða sagt með hvaða hætti slík ábyrgð skuli vera. Það virðist þá eingöngu eiga að vera þannig að ábyrgð sýslumanna er sú að annaðhvort hafi þeir staðið rétt að málum varðandi gjaldtöku eða niðurfellingu gjaldsins eða ekki. Ef þeir hafa ekki staðið rétt að gjaldtöku eða niðurfellingu gjaldsins þá hlýt ég að spyrja formann efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal: Hverju varðar það? Til hvaða ábyrgðar er verið að vísa og hvaða viðurlög eru við því ef þessari ábyrgð er ekki fylgt? Er um að ræða orðalag sem skiptir engu máli? Er þetta orðalag sett inn án þess að einhver gerhugsun sé á bak við það?

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að frumvarpið gefi ekki tilefni til verulegra vandkvæða í framkvæmd.“

Það þýðir þá samkvæmt mínum málskilningi að nefndin telur að frumvarpið gefi tilefni til einhverra vandkvæða en þá er spurningin hvernig menn skilgreina „verulega“. Hvað er hér átt við? Fengu nefndarmenn fullnægjandi upplýsingar um það frá þeim eina sýslumanni sem mætti til nefndarinnar, sem ekki er við það embætti þar sem flestum kaupsamningum er þinglýst, að þarna væri ekki um verulegt vandamál að ræða? Getur verið að þarna séu vandamál sem nefndarmenn fundu út að hægt væri að vinna gegn? Með hvaða hætti þá? Því er hvergi svarað né heldur í hvaða formi þau vandkvæði geta verið varðandi framkvæmdina.

Ég varpaði fram við 1. umr. þessa frumvarps ákveðnum ábendingum og sjónarmiðum sem ég tel að komi til skoðunar og valdi verulegum vanda við framkvæmd þessara laga. Ég taldi þar af leiðandi að það væri heppilegra að fara annaðhvort þá leið að afnema algerlega stimpilgjald af kaupum á íbúðarhúsnæði eða þá að lækka stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, þ.e. um ákveðinn hundraðshluta sem ykist eftir því sem liði á kjörtímabilið. Það yrði þá eins og í frægri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar á sínum tíma þar sem talað var um að herinn mundi hverfa á landi brott á kjörtímabilinu í áföngum, eins færi þá með stimpilgjaldið. En það varð að vísu aldrei úr að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar efndi það fyrirheit en vonandi efnir ríkisstjórnin sem nú situr fyrirheitið um að stimpilgjald verði fellt niður á kjörtímabilinu. Þetta skref er of lítið og það er ómarkvisst.

Síðan segir í nefndarálitinu sem ég velti töluvert fyrir mér:

„... þar sem misvísandi teikn eru um stöðu í efnahagsmálum í heild sinni telur nefndin ekki tímabært að stíga það skref til fulls þótt um það séu skiptar skoðanir.“

Þá velti ég fyrir mér: Skiptar skoðanir hjá hverjum? Eru skiptar skoðanir innan nefndarinnar eða hvað er hér átt við? Misvísandi teikn um stöðu í efnahagsmálum. Til upplýsingar skal þess getið að greiningardeild Glitnisbanka gaf út álit í dag þar sem því er spáð að um verulega niðursveiflu og neikvæðan hagvöxt verði að ræða næstu tvö árin. Einhverjir kunna að koma auga á eitthvað annað en það er hins vegar alveg ljóst að það er alkul á húsnæðismarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Hvaða misvísandi teikn eru þá varðandi stöðu efnahagsmála sem lúta að niðurfellingu stimpilgjalds á þeim eignum sem hér er um að ræða?

Síðan segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Litið yrði á slíkt sem skattalækkun og það væri ekki heppilegt á meðan Seðlabankinn heldur stýrivöxtum háum til að berjast við verðbólgu.“

Hvað er hér um að ræða? Að sjálfsögðu er niðurfelling eða lækkun stimpilgjalds skattalækkun vegna þess að stimpilgjald er skattur þannig að það er augljóst. En síðan segir: „... og það væri ekki heppilegt á meðan Seðlabankinn heldur stýrivöxtum háum ...“ Ég átta mig satt að segja ekki á röksemdafærslunni og ég sé ekki vitræna glóru á bak við orðalag eins og þetta. (Gripið fram í.) Nei, það er einu sinni þannig, hv. þm. Pétur Blöndal, að orðalagið er með þeim hætti. En burt séð frá því, þegar röksemdafærslan er þessi, þ.e. á meðan Seðlabankinn heldur stýrivöxtum háum til að berjast við verðbólgu, á ekki að lækka skatta. (Gripið fram í.) Ef Seðlabankanum skyldi detta í hug að lækka stýrivexti er það sjónarmið að lækka skatta. Svo er sagt að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum háum til að berjast við verðbólgu. Þetta stýrivaxtakapphlaup Seðlabankans, þar sem við erum komnir með Evrópumet í stýrivöxtum, hefur haft þær afleiðingar að við erum líka komnir með Evrópumet í verðbólgu, 23% verðbólgu síðustu þrjá mánuði sem er óásættanlegt. Það er það sem við megum una við og það er spurning um hvort það er ekki einmitt vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum í efnahagsstjórn landsins sem málin eru með þeim hætti. Þar af leiðandi geta þessi meintu hagfræðilegu rök sem færð eru fram í þessu nefndaráliti ekki staðist að mínu viti. Svo segir:

„Hins vegar kann að styttast í að staða efnahagsmála gefi færi á að fella gjaldið niður að fullu.“

Þá velti ég því fyrir mér, virðulegi forseti, hvað átt er við, þ.e. að staða efnahagsmála gefi færi á að fella gjaldið niður að fullu. Fasteignasalar segja mér að það sé ekkert að gerast á húsnæðismarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Getur verið ástæða til að fella gjaldið niður að fullu? Ég segi já, það er ástæða til þess. Það er einu sinni þannig að helsta stóriðjan hér á höfuðborgarsvæðinu er byggingariðnaðurinn og okkur ber að hlúa að þeirri stóriðju. Það skiptir mjög miklu máli varðandi atvinnustig og tekjur fólksins hér á höfuðborgarsvæðinu að það sé gert. Þess vegna hefði það verið lítil en nauðsynleg aðgerð að fella stimpilgjaldið niður að öllu leyti en ekki bara að búa til vandamál með því að setja inn ákvæði um að það skuli eingöngu ná til kaupa á fyrstu íbúð, þó með einhverjum fyrirvörum eins og varðandi eigendasögu maka eða sambúðaraðila kaupanda.

Virðulegi forseti. Ég hef beint nokkrum spurningum til hv. þm. Péturs Blöndals, formanns efnahags- og skattanefndar sem fjallaði um þetta. Mér finnast ýmsir þættir í nefndarálitinu vera vægast sagt lítt skýranlegir og jafnvel dregnar rangar niðurstöður af gefnum forsendum.