136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kemur þessi umræða inn í þingið með þessum hvað eigum við að kalla það, skotgrafarhætti og það er það sem er að fara með Evrópuumræðuna hér á landi, þ.e. skotgrafirnar sem við erum í. Það er kominn tími til þess, virðulegi forseti, að þjóðin fái að vita um hvað Evrópusambandsaðild snýst. (Gripið fram í.) Ég veit það alveg að já-hreyfingin á það til að fara fullgeyst í málflutningi sínum. Nei-hreyfingin gerir það líka. Það hefur aldrei komið skýrt fram hvað það er sem við munum fá út úr aðildarviðræðum vegna þess að það hefur ekki verið gengið til samninga. (GÞÞ: Helguvík.) Og það er ekki fyrr en, virðulegi forseti, að það er ljóst að þessi samningur — hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er mjög órólegur og það er ekkert undarlegt miðað við fortíð þeirra við stjórn landsins þar sem þeir lokuðu augunum fyrir þeim gríðarlega mikla vanda sem blasir núna við þjóðinni hvað varðar gjaldmiðilinn.

Virðulegi forseti. Þegar stjórnmálamenn loka augunum (Gripið fram í.) fyrir því að við eigum í gjaldmiðilsvanda eru þeir að vanrækja hagsmuni þjóðarbúsins í heild. Og það er ekki ástæðulausu sem bæði Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og fleiri samtök og samtök launþega, hafa kallað á það að Evrópuumræðan verði tekin hér af krafti.

Virðulegi forseti. Heimilin og fyrirtækin eru í gríðarlegum vanda og við megum ekki endalaust karpa á þennan sama hátt um þessi Evrópumál. Við erum í gríðarlegum gjaldmiðilsvanda. Við verðum að fara að leysa þau mál, við verðum að fara að leiða þau til lykta. Þess vegna fagna ég því sem fram kemur í ályktun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá síðasta landsfundi þeirra að landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggi áherslu á að aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Það er akkúrat það, virðulegi forseti, sem við þurfum að gera. Nú eigum við þingmenn að taka okkur saman og setja málið í þann feril og ég treysti Samfylkingunni til að ná slíkri niðurstöðu með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.