140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú umræða sem hér stendur er á allan hátt mjög gefandi og góð og það er ágætt að þingmönnum skuli vera skemmt við hana. Ég vil fyrst af öllu segja það að þær tillögur sem við ræðum, og stafa frá hæstv. ríkisstjórn í þeim tveimur frumvörpum sem fjalla um fiskveiðimálin, annars vegar frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða og hins vegar frumvarp um veiðigjaldið svokallaða sem er ekkert annað en veiðiskattur, eru þess eðlis að hafa má þau orð um þær að þær byggi á mjög vafasömum grunni.

Í fyrsta lagi byggjast tillögurnar á landlægum misskilningi og ala á mismunandi sýn almennings á réttarstöðu landsmanna gagnvart fiskstofnum sjávar við Ísland. Það er annað atriðið. Hitt atriðið lýtur að pólitískri hugmyndafræði. Í þeim frumvörpum sem liggja fyrir er sú hugmyndafræði mjög áberandi sem vinstri flokkarnir á þingi reka. Þeir tala og leggja fram tillögur sem miða allar að því að þjappa enn meira valdi til hins opinbera í þeim málaflokki sem hér heyrir undir, þ.e. í atvinnurekstri sem tengist sjávarútvegi í landinu.

Það hefur verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu ára að menn setji mál sitt fram með þeim hætti að þeir telji að pólitískar skoðanir sínar endurspegli mannréttindi og allalgengt er hjá stjórnmálamönnum nú til dags að telja að mál þeirra endurspegli með ágætum vilja þjóðarinnar. Ágætt dæmi um þetta er að finna í umræðum um sjávarútvegsmálin þar sem sú krafa er áberandi að allir fái að veiða fisk við strendur landsins. Sú krafa hefur akkúrat ekkert með mannréttindi að gera, ekki frekar en að allir fái sjálfkrafa rétt til að bora eftir heitu vatni eða olíu. Að baki ráðstöfunum og úthlutun úr takmarkaðri auðlind þurfa hins vegar að liggja málefnaleg sjónarmið.

Vissulega má deila um réttlæti og sanngirni í þessum málaflokki og raunar í öðrum málaflokkum sem snúast um nýtingu á takmörkuðum gæðum, sérstaklega þegar kemur að þeim auðlindum sem Ísland ræður yfir og byggir allt sitt á. Við mat á fyrirkomulagi fiskveiða við Ísland skipta hagsmunir samfélagsins alls höfuðmáli, hagsmunir allra Íslendinga, en ekki réttur allra til að veiða eða önnur heimatilbúin rök sem stjórnmálamenn reyna að færa í einhvern mannréttindabúning. Það er sú staðreynd sem allir hv. þingmenn verða að beygja sig undir.

Í þessu sambandi er rétt að ítreka að aldrei verður of oft minnt á þá staðreynd að þegar kvótakerfi í sjávarútvegi var komið á lauk um leið tíma frjálsrar sóknar í fiskstofna á Íslandsmiðum. Þegar sú ákvörðun var tekin varð að takmarka sóknina með einhverjum málefnalegum hætti. Það er því alrangt af stjórnmálamönnum að gefa til kynna að það sé í boði að opna fyrir frjálsa sókn á Íslandsmiðin.

Það hentar sumum stjórnmálaöflum að nota þessa stöðu til að rugla almenning í ríminu með tilvísunum í pólitísk mannréttindi og mannréttindanefndir og nota slíkan málatilbúnað í hugmyndafræðilegri baráttu þar sem markmiðið er eitt, að efna til ófriðar á fölskum forsendum. Ég held við getum flest hver verið sammála um að staða mannréttindareglna í stjórnarskránni, þeirra sem lúta að eignarrétti, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi o.s.frv., er sú að þær eru smátt og smátt, í þeirri umræðu sem nú hefur staðið linnulaust í um það bil þrjú ár, að glata merkingu sinni. Þessi grundvallarréttindi eru farin að víkja í umræðunni fyrir óskýrum og illa skilgreindum almannahagsmunum, sem svo eru kallaðir, sem eru í raun ekkert annað en mat hins pólitíska meiri hluta hverju sinni.

Þegar við ræðum þetta mál og um eignarhaldið á auðlindinni er sífellt talað um að sjávarauðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar. Hvað felst í því? Hver á þorskinn sem syndir í sjónum umhverfis Ísland, óveiddur? Hver á þá skepnu? Er það íslenska þjóðin sem á þá skepnu? Nei, þorskurinn á sig sjálfur. Sjórinn umhverfis Ísland er almenningur en það er hins vegar viðurkennt af þjóðarétti og landsrétti, meðal annars í dómum Hæstaréttar, að Alþingi hafi í ljósi fullveldisréttar síns allar heimildir til að semja og setja reglur um nýtingu nytjastofna. Fullveldisrétturinn sem Alþingi fer með í umboði kjósenda er ekki eignarréttur. Þessi skilningur er nánast óumdeildur meðal fræðimanna á sviði lögfræði og það ákvæði sem er að finna í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, um að nytjastofnar sjávar séu sameign þjóðarinnar, hefur samkvæmt þessum skilningi meiri hluta lögfræðinga enga eignarréttarlega merkingu.

Ég vitna til orða Skúla Magnússonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, í grein sem hann ritaði í Fréttablaðinu 28. mars sl. þar sem hann segir um samsvarandi ákvæði stjórnlaganefndar, með leyfi forseta:

„Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að „þjóðareign“ vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi — hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms.“

En eins og ég gat um áðan getur Alþingi eigi að síður, standi vilji til þess, lagt skatta eða aðrar kvaðir á þá sem eiga fiskveiðiréttindin að virtum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Þessum sjónarmiðum sem ég hef haldið hér fram, og styðst í því efni við mat löglærðra einstaklinga, er oft andmælt af þeim sem mæla fyrir þeirri lagasetningu sem hér er mælt fyrir, bæði í tillögum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og einnig í tillögum um nýja veiðiskatta. Þeim sjónarmiðum er mótmælt á þeim forsendum að um sé að ræða lagahyggju og bókstafstrú og með því orðalagi er reynt að sópa út af borðinu grundvallarumræðu um grundvallaratriði í íslenskri stjórnarskrá.

Með sama hætti mætti spyrja þá sem halda þessu fram á hverju þeir ætla að byggja þetta samfélag Íslendinga, 300 þúsund manna, hér norður í Atlantshafi, ef ekki á lögum. Ætla þeir að byggja samfélagið á því hvernig pólitískir vindar blása hverju sinni? Ætla þeir að byggja samfélagið á tilfinningasemi eða geðþótta einstakra stjórnmálamanna?

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr gerðist það á síðari hluta 20. aldar að veiðar á Íslandsmiðum, sem í langan tíma höfðu verið frjálsar að meira eða minna leyti, voru takmarkaðar. Á þeim tímamótum, eða í aðdraganda þeirra, var flestum sem tengdust sjávarútvegi orðið fullljóst að í það stefndi og að lokum skapaðist um það mikil samstaða í þjóðfélaginu að takmarka yrði sókn í fiskstofna við landið. Um það var almenn samstaða. Í því ljósi setti Alþingi reglur til að koma í veg fyrir hrun fiskstofna. Hins vegar var deilt um hvernig það yrði gert, eðlilega voru skoðanir skiptar um það og mikil átök. Engu að síður liggur fyrir að Hæstiréttur Íslands hefur staðfest að málefnalega hafi verið að því staðið að takmarka veiðar og að kerfi framseljanlegra réttinda fái staðist stjórnarskrá landsins.

Á þeim árum sem liðin eru, sem eru að verða um 30, hefur þetta kerfi fest sig í sessi og á þeim grunni hafa viðskipti farið fram um árabil í þeirri góðu trú að þetta væri allt löglegt og stæðist stjórnarskrá. Sumir í þessu kerfi hafa selt fiskveiðiréttindin á meðan aðrir hafa keypt þau. Lánastofnanir hafa veitt lán gegn veði í réttindunum á sömu forsendum og jafnvel hefur skattalögum verið beitt á þau viðskipti með þeim hætti sem um eignir væri að ræða. Þeir sem hafa unnið innan þeirra takmarkana sem Alþingi setti hafa einfaldlega unnið þetta í þeirri góðu trú að lagasetningin standi.

Reynslan þessi 30 ár er sú að kerfið er mjög hagkvæmt, arðbært. Umræðan um sjávarútveginn í þessu kerfi á síðustu árum hefur breyst. Mestan part síðustu aldar snerist hún um það hve mikið þyrfti að leggja til atvinnugreinarinnar úr samfélagssjóðum en í dag snýst hún um það hve mikið ríkissjóður eigi að taka út úr greininni. Engin málefnaleg rök hafa verið færð fram af formælendum þeirra frumvarpa sem fyrir liggja sem réttlæta þá aðferð sem gerð er að grundvelli þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við Íslendingar höfum byggt upp á síðustu þremur áratugum. Þvert á móti mæla veigamikil rök með því að fremur ætti að styrkja grundvöll þess ef vilji stjórnvalda liggur til þess að nýting fiskstofna á Íslandsmiðum skili þjóðarbúinu sem mestum arði.

Þær tillögur sem liggja fyrir í frumvörpunum eru grundvallaðar á stefnu núverandi stjórnarflokka sem þeir lögðu fram í formi stefnuskráa sinna fyrir alþingiskosningarnar 2009 og þær miða allar að því með einum eða öðrum hætti að ríkið taki til sín hin verðmætu réttindi og úthluti þeim til væntanlegra notenda gegn gjaldi. Af því tilefni spyr maður sig hvernig fulltrúar þeirra flokka dirfast að ganga þannig fram að réttindi sem einstaklingar og fyrirtæki hafa keypt eða selt fullu verði skuli hrifsuð af þeim með ríkiskrumlunni án bóta og án þess að fyrir liggi að annað fyrirkomulag geti búið til úr þeim meiri verðmæti en núverandi fyrirkomulag skapar.

Svo undarlegt sem á það er að hlýða taka hinir svokölluðu hægri kratar undir þau sjónarmið að ríkisútgerðina skuli efla með ráð og dáð. Enginn úr þeirra röðum virðist leggja nokkurn trúnað á það sem margsannað er í sögunni að verðmætin verða til við það að einstaklingar og fyrirtæki á þeirra vegum fari með eignarrétt á gæðum, nýti þau og ráðstafi þeim. Þvert á móti vilja búsráðendur á þessum bænum frekar að stjórnmálamenn hafi í krafti ríkiseignar full umráð yfir öllum þessu gæðum, úthluti þeim til nýtingar gegn himinháu gjaldi og stýri að auki takmörkuðum nýtingarrétti með reglusetningu og eftirliti. Ég held að tæpast sé unnt að komast nær því að tala fyrir róttækri ríkisforsjá en stjórnarliðar úr Vinstri grænum og Samfylkingunni hafa gert á undanförnum missirum. Það verður tæpast unnt að komast nær því að tala um allsherjarríkisforsjá.

Það sjá allir sem vilja að það er blekking að reyna að halda öðru fram því að í kerfinu sem verið er að reyna að byggja upp verða réttindi einstaklinga nánast engin með tilliti til eigna og atvinnufrelsis. Vald ríkisins á, í þeim tillögum sem hér liggja fyrir, að vera algilt, alltumlykjandi og gnæfa yfir allri atvinnugreininni. Talsmenn frumvarpanna telja það fyrirkomulag farsælast í þessum efnum að sjávarútvegsráðherra verði útgerðarmaður Íslands með ótal leiguliða. Óskandi væri að unnt væri að koma stjórnarliðum og talsmönnum þessara mála í skilning um að best væri að alþingismenn stæðu saman, tækju saman höndum um þá skipan að Alþingi setti reglurnar og ríkið hefði síðan eftirlit með framkvæmd þeirra. Ríkið á ekki undir neinum kringumstæðum, nema þegar menn vilja að illa sér farið með, að vera eigandi gæðanna og úthluta síðan eftir geðþótta stjórnmálamanna.

Sú staða sem hér er boðið upp á endurspeglast ágætlega í þeim áformum sem sett hafa verið fram í þessum frumvörpum og sérstaklega í því sem nú er nær eingöngu til umræðu, sem er veiðigjaldamálið. Þegar við stöndum í þessum umræðum liggur fyrir að þegar málið er komið til 2. umr. er allt sem að því lýtur ákaflega óljóst. Það veit enginn hver áhrifin verða á sjávarútveginn í heild, hvað þá á einstaka byggðir, landsvæði, útgerðir eða útgerðarflokka. Ekki hafa verið lögð fram nein formleg gögn eða útreikningar sem styðja þær fullyrðingar sem koma fram hjá talsmönnum þessa máls um það hver fjárhæð veiðileyfaskattsins verður. Engin úttekt hefur verið gerð á áhrifum þess sem talsmenn veiðileyfaskattsins tala fyrir í bráðabirgðaákvæði, að það muni verða til þess að létta skuldsettum útgerðum róðurinn við að standa undir þeim ofursköttum.

Ég vil af því tilefni taka undir þau orð sem standa í nefndaráliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar þar sem segir á bls. 9, með leyfi forseta:

„Loks er það örugglega einsdæmi í þingsögunni að lögð hafi verið fram frumvörp af ríkisstjórn sem ætlað sé að skapa heildarramma um sjálfan sjávarútveginn en hafi það í för með sér að ekkert einasta fyrirtæki í greininni ráði við afleiðingar þess. Sú er þó niðurstaða þeirra sérfræðinga sem atvinnuveganefnd kvaddi til ráðslags um frumvörpin.“

Það er raunalegt að verða vitni að því á tímum þegar þessi grundvallaratvinnugrein landsmanna er í fullum færum til að leggja allt til, aðstoða við að endurreisa fjárhag og afkomu landsmanna, sé henni haldið í þeirri gíslingu af núverandi stjórnvöldum sem raun ber vitni. Þegar maður heldur því fram að atvinnugreininni sé haldið í gíslingu kveður oft við þann tón í röðum stjórnarliða að það sé fjas sem lítið sé að marka. En ef maður lítur aðeins yfir söguna og þá vinnu sem átt hefur sér stað undir forræði núverandi ríkisstjórnar er ósköp einfalt að stoppa við árið 2010, maður þarf ekkert að fara lengra aftur en það. Margt hafði vissulega gerst áður því að í stjórnarsáttmála var kveðið á um allt annan gang en þann að þetta tæki mörg ár. Samstarfssamningur ríkisstjórnarflokkanna hljóðaði upp á það að tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu skyldu liggja fyrir mun fyrr.

Hin svokallaða sáttanefnd skilaði af sér skýrslu í september 2010. Sú skýrsla var mjög viðamikil og meginniðurstöðurnar voru í þá veru að nefndin lagði til að byggt yrði á aflamarki og aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi og aflaheimildum yrði ráðstafað með formlegum samningi til langs tíma o.s.frv. Vart var liðinn nema einn og hálfur sólarhringur þegar flótti Samfylkingarinnar var hafinn frá þeirri niðurstöðu sem sáttanefndin hafði skilað af sér. Þá þegar hófust pólitísk átök, ekki endilega við stjórnarandstöðuna heldur á milli stjórnarflokkanna. Þau átök kristölluðust ágætlega í orðaskiptum hv. þingmanna Ólínu Þorvarðardóttur og Björns Vals Gíslasonar, sem var raunar varaformaður þeirrar sáttanefndar sem hafði starfað. Þegar farið var að draga í efa niðurstöðu sáttanefndarinnar og farið að gefa til kynna að við hana ætti ekki að standa hafði hv. þm. Björn Valur Gíslason eftirfarandi orð á Alþingi, við umræðu um þingsályktunartillögu í október 2010, um þá gagnrýni sem niðurstaða sáttanefndarinnar hlaut, með leyfi forseta:

„Mér fyndist ég vera að ganga á bak orða minna ef ég ætlaði að bakka út úr þeirri vinnu sem við skiluðum af okkur á þeim forsendum sem ég fór í þetta starf, ásamt öllum þeim aðilum sem þar voru, og legði til að þessu yrði öllu kastað fyrir róða og við skyldum gera eitthvað annað en til var ætlast í upphafi. Það væri ekki að mínu viti drengileg framkoma gagnvart þeim sem tóku þátt í starfi okkar, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu.“

Þetta voru orð varaformanns sáttanefndar í fiskveiðistjórnarmálunum, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem hann viðhafði. Og hvernig var síðan farið með þessa afstöðu? Gengu menn á bak orða sinna? Var um að ræða drengilega framkomu á þessum grunni? Þess sér stað þegar við skoðum hvað þá tók við. Það var ósköp einfalt, þáverandi ríkisstjórn afgreiddi á fundi sínum 10. maí 2011 frumvörp hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um heildarlög um stjórn fiskveiða og veiðigjald.

Níu dögum eftir að ríkisstjórnin afgreiddi það mál á fundi sínum voru frumvörpin lögð fram á Alþingi, 17. maí, fyrir rétt rúmu ári. Megininntakið í þeim tillögum var á þann veg að þar gengu menn á bak orða sinna og sýndu ekki drengilega framkomu því að tillögur sáttanefndarinnar voru að engu hafðar. Engu að síður stóð ríkisstjórnin einhuga að baki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þeirri viðleitni að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu og meðal annars komu þarna fram áform um að tvöfalda veiðigjaldið og innkalla kvótann o.s.frv.

Það var raunar fróðlegt en um leið raunalegt að fylgjast með því sem tók við í framhaldi af því að þau frumvörp komu fram. Mat allra sem um þessi mál fjölluðu var mjög einfalt og skýrt. Þetta var fyrir það fyrsta eitthvað sem gekk þvert á það sem sátt hafði náðst um. Í orðum þeirra sem rýndu þetta og tjáðu sig um það, bæði úti í samfélaginu og ekki síður í athugasemdum sem bárust, var mikill samhljómur. Fyrst og fremst á þann veg að þjóðin í heild mundi tapa ef frumvörpin yrðu að lögum og að sjálfsögðu yrði tapið mest innan sjávarútvegsins en jafnframt lögðu menn það mat á þær fyrirhuguðu breytingar að allt þjóðfélagið mundi tapa tekjum.

Það var alveg sama hvar borið var niður, hvort heldur það voru hagfræðingar, sveitarstjórnir eða ritstjórnir fjölmiðla, matið var allt á sama veg og Alþýðusamband Íslands gekk mjög langt í því að rýna frumvörpin og sagðist ekki skilja til fullnustu allt sem þar væri sett fram. Í Morgunblaðinu 17. maí upplýsti forseti ASÍ að hann hefði vonast til þess að frumvörpin mundu tryggja fyrirsjáanleika og varanleika í sjávarútvegi og bætti við, með leyfi forseta:

„En það er spurning hvort þetta veldur meira rótleysi í greininni og það sé meira verið að horfa til tímabundinna starfa. Jafnvel verið að fórna langtímastörfum fyrir skammtímastörf. Það þarf að horfa til þeirra sem byggja lífsafkomu sína á sjávarútvegi.“

Svör stjórnarliða sem báru frumvörpin fram og ætluðu að standa fyrir þeim alveg út í eitt voru á þann veg að verið væri að færa fram hræðsluáróður, hrópað væri að sjávarútvegurinn mundi hrynja ef breytingar yrðu gerðar. Einstaka þingmenn gengu jafnvel svo langt að halda því fram að spár um atvinnumissi og annað mundu ekki rætast og gáfu til kynna að þar sem engar úttektir lægju fyrir um áhrif þessara frumvarpa skyldu menn bara bíða og sjá og raunin yrði sú að öll gagnrýni sem sett hefði verið fram væru innstæðulaus. Því miður reyndust stjórnarliðar enn einu sinni hafa haft rangt fyrir sér og það mat sem sérfræðinefnd sem fengin var til að leggja hlutlaust mat á þetta dæmdi bæði frumvörpin gjörsamlega handónýt svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Allur þessi darraðardans, allt þetta fum, öll þessi vinna ber þess vott að ekki sé einhugur meðal stjórnarliða um hvernig fullnusta eigi þessi áform. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar segir að markmið sjávarútvegsstefnunnar sé að fiskveiðar séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf. Undirstrikað er í stefnuyfirlýsingunni að sjávarútvegurinn eigi að gegna lykilhlutverki í þeirri endurreisn atvinnulífsins sem fram undan sé. Þetta eru háleit markmið og þegar við bætist að afar mikilvægt sé, eins og segir í stefnuyfirlýsingunni, að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, og jafnframt skuli leita sátta um stjórn fiskveiða, þá er það raunar með ólíkindum að verða vitni að því þegar hæstv. forsætisráðherra Íslands, sem á nú að heita í forustu fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, fellir þennan dóm í fjölmiðlum, nánar tiltekið í Kastljóssviðtali 29. september 2011, yfir vinnu ríkisstjórnarinnar og samráðherra sinna allra og raunar einnig þingflokkanna: „Þetta var gallað frumvarp að mörgu leyti …“

Þetta segir hæstv. forsætisráðherra við alþjóð nokkrum mánuðum eftir að frumvörpin voru lögð fram opinberlega. Það er mjög athyglisvert að fá slíka yfirlýsingu frá hæstv. forsætisráðherra sem á nú að heita verkstjórinn við þessa vinnu. Hún upplýsir alþjóð um að hún samþykki í ríkisstjórn Íslands og leggi blessun sína yfir frumvarp að lögum um mikilvægustu atvinnugrein landsins sem hún sjálf telji að mörgu leyti gallað. Síðan komu pótintátar í kjölfarið og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sagði í viðtali á sama vettvangi rétt fyrir jólin að ríkisstjórninni mundi aldrei takast að koma sama máli í gegn og lagt hefði verið fram á síðasta þingi.

Væntanlega hefur hæstv. utanríkisráðherra verið farinn að skynja hve heitur stóllinn var undir þáverandi sjávarútvegsráðherra. Í það minnsta treysti hann sér til að fella þann dóm um það frumvarp, sem forsætisráðherra var raunar búinn að afgreiða snyrtilega eins og ég gat um áðan, að það væri eins og bílslys, menn rækjust bara á vegg, og að menn ættu að læra af reynslunni og því hvernig tókst til. Þegar hann var spurður að því hvort boðlegt væri að leggja fram frumvarp sem fengi þessa einkunn svaraði hann, eins og menn muna: Mér fannst það ekki boðlegt enda lagði ég það ekki fram.

Strax á haustmánuðum 2011 eru bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra komnir á harðahlaup undan eigin frumvarpi. Á það ber að minna að það var ríkisstjórnin sem samþykkti í maí að leggja þau frumvörp fram í þingflokkunum og þingflokkarnir veittu ríkisstjórninni síðan umboð til að leggja þau fram á þingi. Síðan koma ráðherrarnir báðir nokkrum vikum seinna eða mánuðum og upplýsa að þeir hafi talið þetta gallað og ekki þess eðlis að unnt væri að leggja það fram í þeim búningi sem raun ber vitni og höfðu með öðrum orðum enga trú á því að hægt væri að ná þessu fram.

Hvernig stendur á því að af hálfu ríkisstjórnarflokkanna sé unnið með þessum hætti að málefnum sjávarútvegsins? Það kynni þó ekki að vera og felast í þeirri staðreynd að báðir stjórnarflokkar séu að upplifa að gífuryrðin sem einstakir fylgisveinar ríkisstjórnarinnar hafa viðhaft um réttlæti, réttmæta skiptingu auðlindarinnar og frjálsan rétt allra til að ganga í hana séu erfið í framkvæmd, að það sé einfaldlega flóknara en menn héldu að búa svo um hnútana að það geti orðið að veruleika. Í stað þess að viðurkenna það og ræða hlutina á þeim grunni er þverskallast við og hvert frumvarpið á fætur öðru lagt fram vitandi það að þau munu ekki geta gengið eftir öðruvísi en að stórskaða atvinnugreinina sjálfa, að ekki sé talað um einstakar byggðir í landinu.

Þegar þetta er gagnrýnt er þrautaráðið venjulega það að halda því fram að gagnrýnin á verkið sé ekki boðleg heldur stafi hún af annarlegum hvötum, að þingmenn sem leyfi sér að hafa skoðanir á þessu verklagi standi fyrir einhver annarleg sjónarmið sem ekki eigi innangengt í þennan þingsal nema í gegnum einhverjar málpípur. Þetta eru, forseti, rökþrot og þetta er flótti frá því að taka málefnalega umræðu um það sem skiptir máli. Það er fullkomlega eðlilegt að sú krafa sé gerð til stjórnarliða að þeir standi fyrir máli sínu, færi fyrir því rök hvernig þetta eigi allt saman að ganga upp.

Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni hefur engin tilraun verið gerð til þess að leggja mat á áhrif þeirra tillagna sem felast í þessum frumvörpum á byggðina í landinu. Engin tilraun hefur verið gerð til þess að leggja fram upplýsingar um hvaða áhrif veiðigjald upp á 15 milljarða, ef það verður þá það, muni hafa á útgerð og útgerðarflokka í landinu. Áhrifin af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram á þróun landsvæða og byggðar á tilteknum svæðum hafa ekki verið metin.

Í mati þeirra sérfræðinga sem unnið hafa fyrir atvinnuveganefnd, eins og fulltrúar í þeirri ágætu nefnd hafa gert grein fyrir, hefur ítrekað verið bent á að mikilvægt sé að úttekt verði gerð á afleiðingum einstakra greina þessara frumvarpa. Það er alveg ljóst að umfang þeirra afleiðinga sem af þessu verða verður mikið. Það er alveg ljóst að innstæða er fyrir því þegar forsvarsmenn fjölda sveitarfélaga halda því fram að þetta muni draga kraftinn úr atvinnulífi viðkomandi staða og það er einnig ljóst að full ástæða er til að gefa gaum orðum forsvarsmanna einstakra sjávarútvegsfyrirtækja, hvort heldur þau eru í einyrkjaútgerð eða í stærri félögum, sem hafa varað við því að áhrifin verði þau að það dragi úr umfangi útgerðarinnar og störfum fækki með tilheyrandi áhrifum á þjónustusvæðum viðkomandi útgerðarfélags.

Ljóst er að hér er um að ræða hreinan og kláran skatt á atvinnulíf landsbyggðarinnar. Það er undansláttur af forsvarsmönnum stjórnarflokkanna að halda öðru fram. Hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talaði mjög fjálglega gegn auðlindagjaldi eða auðlindasköttum árið 1997. Það eru til hér í tíu liða samantekt, og hefur margoft verið ítrekað, athugasemdir frá Steingrími J. Sigfússyni, þá þingmanni Alþýðubandalagsins, þar sem hann skýtur niður allar hugmyndir um veiðigjald. Það er raunar mjög fróðlegt að lesa þetta saman við veruleikann eins og hann er í dag. En í stuttu máli sagt er ljóst að sá þingmaður sem starfaði fyrir Alþýðubandalagið í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1997 hefur gjörsamlega gengið í björg, svo að ekki sé meira sagt miðað við það frumvarp sem hann leggur fram og við tökumst á um um þessar mundir.

Það er ekki eins og hv. þingmaður, þá Alþýðubandalagsins, hafi misst sig gagnvart þessum hugmyndum í þetta eina sinn því að fyrir liggur að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kynnti bók sína Róið á ný mið árið 1996 hafði hann nákvæmlega sömu skoðun uppi og hann hafði ári síðar. Hann taldi þetta fráleita hugmynd, og að það mundi ekki leysa nokkurn einasta vanda, enda bara skattur ofan á núverandi ástand. Ég vil því taka undir flest þau rök sem fram komu á árunum 1996 og 1997 úr barka þáverandi hv. þingmanns Alþýðubandalagsins, Steingríms J. Sigfússonar. Einhvern tímann voru höfð mjög sterk orð um skoðanaskipti af þessu tagi, algjöra stefnubreytingu af hálfu hv. þingmanns, og ekki er óeðlilegt að menn krefjist þess að viðkomandi þingmaður rökstyðji það með skynsamlegum hætti og reyni að nálgast vitlega skýringu á því hvers vegna hann hefur skipt svona gjörsamlega um ham.