141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég hef tekið þátt í því á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar að fjalla um þetta mál. Ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni hefur mikill tími farið í að reyna að tryggja þeim hópi sem hér er verið að mæta úrlausn sinna mála, úrlausn sem hann hefur ekki fengið með öðrum aðgerðum. Þess vegna er það skref sem hér er stigið ákaflega þýðingarmikið. Það er líka rétt að halda því til haga að þetta er ekki endanleg lausn hvað þennan hóp varðar.

Ég segi líka eins og ýmsir aðrir í umræðunni hér: Það er ekki trúverðugur málflutningur að tala hátt og snjallt um það sem gera þarf fyrir fjölskyldurnar í landinu en ljá þessu máli ekki stuðning. Það er þegar farið að molna undan kosningaloforðum Framsóknarflokksins.