143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Í lok þessa fyrsta heila þingvetrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks liggur fyrir að þjóðin er farin að átta sig á hvers konar vandræðaástand er að teiknast upp. Framsóknarflokkurinn hefur misst annan hvorn kjósanda frá sér frá kosningum, slíkur er trúverðugleikinn, og Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í sessi sem flokkur með innan við fjórðungsfylgi, en einhverjum hefði nú brugðið við slíkar tölur á síðustu öld.

Lítið hefur gengið upp, en eitt þó: Að hygla útgerðinni. Að rétta útgerðinni í landinu hátt í 20 milljarða á þremur árum á sama tíma og peningar eru ekki til fyrir grunnþjónustuna, heilbrigðiskerfið og menntakerfið, og skapandi greinar og rannsóknir og nýsköpun mega bíða. Á sama tíma og náttúran verður illa varin í sumar fyrir ágangi ferðamanna og menningarsamningar eru enn í uppnámi eru til peningar fyrir þessa aðila sem standa svo ógnarnærri stjórnarflokkunum.

Listinn yfir vandræðaganginn er langur, með allt niður um sig er jafnvel orðalag sem á vel við. Heimsmetið sem verið er að vinna að þessa dagana í gegnum þingið felur í sér fáheyrt ábyrgðarleysi, fordæmalausar útgreiðslur úr ríkissjóði og líka til þeirra sem ekkert þurfa á því að halda, en heilu hóparnir sitja eftir. Hola íslenskra fræða gapir og minnir á forgangsröðun og áherslur ríkisstjórnar sem enn lætur sig dreyma um álver og virkjanir, ágengar totur virkjanafyrirtækja og stórkarlalausnir gamalla tíma. Sóknaráætlanir úti um land liggja óbættar hjá garði, fjárfestingaráætlanir fyrri ríkisstjórnar blásnar af og SMS-styrkveitingar forsætisráðherra taka við. Aftur til fortíðar, þeirrar fortíðar þar sem handahóf, frændhygli og klíkustjórnun réðu ríkjum. Kjóstu mig og ég launa þér síðar. Kunnugleg stef sem voru gagnrýnd í rannsóknarskýrslu Alþingis en ungir stjórnmálamenn taka nú upp og hreiðra um sig í anda úreltra hugmynda um völd og áhrif.

Vinnudeilur geisa um allt samfélag, verkföll og vinnustöðvanir. Ljóst er að ríkisstjórnin ræður engan veginn við að halda ró í samfélaginu og ber fulla ábyrgð á þeim óróleika. Greinilegt er að ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum er ekki treyst, það sést í skoðanakönnunum sem birtast þessa dagana, en rétt um þriðjungur þjóðarinnar styður nú ríkisstjórnina. Það sést líka í vaxandi átökum á vinnumarkaði, sem nú er líkt við þann óróleika sem ríkti áður en tókst að koma á þjóðarsátt fyrir hartnær fjórðungi aldar. Allt samfélagið logar í átökum. Ríkisstjórnin kemur nú ítrekað með frumvarp inn í þingið um að stöðva vinnudeilur.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Það eru líka blikur á lofti í heilbrigðismálum. Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er handan við hornið, ráðherrann slær úr og í, gefur þinginu engin svör um áformin en talar skýrt á fundum úti í bæ um kunnuglega drauma hægri manna um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar þar sem borgað er fyrir þjónustuna sífellt meira og mest þeir sem mest hafa og þá væntanlega fyrir betri þjónustu eða hvað? Einhver hagnast svo á öllu saman og mest af fjármagninu kemur áfram úr ríkissjóði. Sveltur Landspítali sem enn hefur ekki öðlast þá framtíðarsýn sem honum ber er nýttur sem verkfæri til að þrýsta á einkavæðingu og slíkar lausnir. Allt kunnugleg stef úr pólitík hægri aflanna á Íslandi, pólitík sem verður að hafna og forða landinu frá.

Utanríkismálin eru kapítuli út af fyrir sig þar sem Framsóknarflokkurinn er í raun niðurlægður. Kosningasvikin reyndust ráðherrum Sjálfstæðisflokksins of stór biti að kyngja, enda voru þeir afhjúpaðir hver á fætur öðrum með eftirminnilegum hætti nú í vetur. Loforð þeirra fyrir kosningar voru dregin fram og borin saman við bráðatillögu utanríkisráðherra um slit á viðræðum við ESB. Fáránleg staða málsins bæði innan lands og utan er eftirtektarverð og engan veginn búið að bíta úr nálinni með áhrifin á Sjálfstæðisflokkinn. Formaður Heimssýnar og jafnframt einn af hv. leiðtogum Framsóknar hlýtur að láta til sín taka í næstu skrefum, annað kæmi á óvart.

Samskipti forsætisráðherra við þingið hafa verið með ólíkindum. Í stærstu málum ríkisstjórnarinnar hefur hann varla látið sjá sig, ekki í ESB-umræðunni, ekki í skuldamálunum, sem eru þó hans stærstu mál og heimsmet í kosningaloforðum ef marka má hans eigin orð. En nei, hann þarf ekki að tjá sína afstöðu eða skiptast á skoðunum eða vera í samtali við þingið heldur lokar sig af, aðrir mega sjá um umræðuna. Formaður rökhyggjuflokksins forðast umræðuna, leggur ekki í umræðuna þegar á reynir.

Virðulegur forseti. Það hefur verið stefna þingflokks VG á þessu þingi að stuðla að samstöðu stjórnarandstöðuflokkanna bæði í málefnum og baráttuaðferðum. Það hefur ekki alltaf tekist og við höfum ekki alltaf verið ánægð með allt sem aðrir flokkar í stjórnarandstöðu hafa gert eða látið frá sér fara. En samstaða hefur verið grunnlínan. Þessi leið hefur skilað raunverulegum árangri í samvinnu við þjóðina og jafnvel einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum. Þessi lína hefur skilað þeim árangri t.d. að komið var í veg fyrir að náttúruverndarlögin væru afnumin í heild, desemberuppbót fyrir atvinnulausa var komið á, sjúklingaskattur var afnuminn og fleira og fleira. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um raunverulegan árangur samstöðu stjórnarandstöðunnar.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Sögulegt fylgistap ríkisstjórnarinnar frá kosningum gefur skýr skilaboð um afstöðu þjóðarinnar. Þjóðin telur komið nóg og nú er lag. Nú er tækifæri í kosningum til sveitarstjórna að veita ríkisstjórninni verðuga ráðningu. Skýrasta krafan um aðra stefnu er stuðningurinn við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Það er mikilvægt að kjósendur nýti það tækifæri vel og af einurð og láti ríkisstjórnina heyra það. Notum tækifærið. — Góðar stundir.