144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

yfirvofandi verkfall í ferðaþjónustu.

[14:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Svo ég orði það skýrt var ég að þessu sinni ekki að inna hæstv. ráðherra eftir einhverjum lausnum á kjaradeilum innan ferðamannaiðnaðarins. Ég held að erlendum ferðamönnum sé í meginatriðum sama um verðbólgu svo lengi sem þeir telja að gengið sé ekki of óhagstætt.

Það sem er hins vegar farið að gerast nú þegar er að ferðamannaiðnaðurinn er farinn að bíða skaða af umtalinu um komandi verkföll og vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, að því er virðist vera, og auðvitað hins háa Alþingis. Það eitt og sér, þ.e. það sem virðist vera aðgerðaleysi hefur mjög neikvæð áhrif á hvernig erlendir ferðamenn líta á landið.

Það sem ég er að reyna að velta upp hérna er að við þurfum að mínu mati einhvers konar viðbragðsáætlun við þeim skaða sem ferðamannaiðnaðurinn verður fyrir, og ég velti fyrir mér viðhorfi hæstv. ráðherra gagnvart því, ekki lausn á verkföllunum sjálfum, heldur viðbragðsáætlun til þess að við getum komið þeim skilaboðum skýrt til erlendra ferðamanna og þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í ferðamennsku að hér sé í fyrsta lagi eitthvað gert til þess að reyna að forðast verkföll og í öðru lagi að að þeim loknum, eða hvernig sem þetta fer allt saman, sé ríkið reiðubúið til að eiga nógu góð samskipti við (Forseti hringir.) aðila ferðamannaiðnaðarins þannig að það sé auðveldara að hvetja erlenda ferðamenn til þess að koma hingað aftur.