144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það verður að taka undir hvert einasta orð sem var sagt rétt áðan. Það er nefnilega ekki boðlegt að bjóða þingheimi upp á þetta. Þetta er heimatilbúið vandamál. Fyrst og fremst snýr það að því að við erum, eins og hér kom fram, væntanlega ekki að ræða nokkurn skapaðan hlut. Við erum búin að afgreiða það sem tilbúið er af þeim málum sem hafa komist út úr nefndum. Það er bagalegt að þegar varað hefur verið við því hvernig ekki beri að hafa fjárlög og hvernig beri að leggja upp með þau er samt hvert málið á fætur öðru að koma fram núna.

Nátttúrupassinn fór flatt, eins og við þekkjum. Hvað gerist þá? Þá kemur fjármálaráðherra fyrir fjárlaganefnd, í morgun, og leggur til 850 milljónir í fjárveitingar í innviði samfélagsins. Það er vel í sjálfu sér að fjármagnið sé sett þangað en það á ekki að gera það á þennan hátt. Það er búið að vara við þessu en samt er ekki hlustað á það. Af hverju? Af því að þetta var partur af fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar um það hvernig átti að fara í þá hluti. Það sem er gert núna og búið er að vera að sneiða niður frá því að þessi ríkisstjórn tók við (Forseti hringir.) er hún smám saman að setja inn aftur. Af hverju? Af því að þá gerði hún það. Það má ekki vera arfleifð fyrri ríkisstjórnar sem þessi ríkisstjórn gæti þá hugsanlega verið að framfylgja. Sama er með þetta mál (Forseti hringir.) sem við erum með til umfjöllunar, verið er að ganga gegn því sem ákveðið var á síðasta kjörtímabili.