145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í tilefni dagsins hafa nokkrir þingmenn stigið í pontu og talað um jafnréttismál. Það vakti athygli mína að hver einasti þeirra var kona. (Gripið fram í.) Það er kaldhæðnislegt að ákveðnu leyti. Það er líka dæmigert, því miður. Þess vegna langar mig ásamt þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér að vekja athygli á framtakinu HeForShe sem bendir á það mikilvæga atriði að jafnrétti verður ekki náð með því einu að konur berjist fyrir jafnrétti, karlmenn þurfa líka að berjast fyrir jafnrétti. Það er alveg eins og með réttindi samkynhneigðra, þeir gátu ekki öðlast jafnrétti einir síns liðs, það þurfti stuðning gagnkynhneigðra og fólks sem er öðruvísi en hið svokallaða norm í þeim efnum.

Jafnréttismál eru nefnilega ekki að mínu mati eingöngu spurning um kyn, tvö eða fleiri kyn. Jafnrétti er spurning um undirliggjandi prinsipp, alveg eins og réttindi samkynhneigðra eru ekki í sjálfu sér spurning um samkynhneigð, það er spurning um jafnrétti án tillits til kynhneigðar. Að sama skapi snýst jafnrétti um jafnrétti án tillits til kyns.

Það er lykilatriði að það sé nokkuð sem við komum á sem samfélag, ekki sem kyn heldur sem samfélag, að þar sé það undirliggjandi prinsipp sem við ætlum að taka upp. Ég vil líka leggja áherslu á að því markmiði verður ekki náð eingöngu með lagasetningu. Stundum þarf hana, gott og vel, en þeim markmiðum verður einungis náð með samþættu átaki og menningarlegri breytingu vegna þess að við viljum það sjálf sem einstaklingar, ekki sem þingmenn heldur sem einstaklingar, sem samfélag.

Í allri umræðu um jafnrétti og þrátt fyrir þá mjög góðu þróun sem þegar hefur átt sér stað verðum við að átta okkur á því að enn er margt að. Hvers vegna? Þessi málaflokkur hefur fengið mikla athygli í langan tíma. Allir eru í meginatriðum sammála. Hvað vantar? Það vantar það að við nálgumst málið sem menning, sem einstaklingar, hvernig við lítum á annað fólk, ekki bara út frá því hvaða lagasetningu við setjum.


Efnisorð er vísa í ræðuna