150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

uppbygging að loknum veirufaraldri.

[13:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Íslendingar, og reyndar flestar þjóðir heims, eru sem betur fer að komast yfir það neyðarstig sem ríkt hefur undanfarna mánuði vegna Covid-19. Efnahagsleg óvissa er þó enn mikil og því nauðsynlegt að fara að taka ákvarðanir með framsýni að leiðarljósi. Það er kominn tími til að eiga lýðræðislegt og opið samtal við þjóðina um þá stefnu sem Ísland á að taka í framtíðinni. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nokkurn áhuga á slíku samtali hingað til heldur púslar hún saman aðgerðum í lokuðum hópi ráðherra og hagsmunaaðila. Þessar aðgerðir eru samt grundvöllur þess sem koma skal í efnahagsuppbyggingu þjóðarinnar. Því er bæði nauðsynlegt að standa vel að þeim og tryggja víðtæka sátt um aðgerðirnar í samfélaginu.

Hvernig framtíð myndum við skapa, forseti, ef við tækjum það fjármagn sem verið er að dæla í að viðhalda núverandi eignarhaldi á fyrirtækjum í gegnum uppsagnarleiðina ef við settum það fé í að byggja upp umhverfisvænan þekkingar- og nýsköpunargeira? Við getum stóraukið fé í menntakerfið og styrkt nemendur enn frekar til náms. Þannig gætum við búið til samfélag með fjölbreytta hálaunaatvinnuvegi sem hefði mun meiri þrautseigju þegar kemur að áföllum. Í staðinn virðist stefnan vera, ef einhverja stefnu er að finna yfir höfuð, að setja fortíðina í híði á kostnað almennings og veita núverandi eigendum fyrirtækja forskot á aðra ef til þess kæmi að ferðaþjónustan næði fyrri hæðum. Og allt þetta án teljandi varna fyrir réttindi launafólks. Í stað þess að valdefla almenning festir ríkisstjórnin í sessi yfirráð fyrirtækja yfir lífsafkomu almennings. Sú nálgun hefur vissulega verið aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins í marga áratugi en margir Íslendingar, þar á meðal sú sem hér stendur, héldu að forsætisráðherra Vinstri grænna myndi hugsanlega taka fólk fram yfir fjármagn.

Forseti. Ég get ekki betur séð en að fortíðin sé planið og höfundur plansins sé Sjálfstæðisflokkurinn, eða hvað, hæstv. forsætisráðherra?