150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

nýting vindorku.

[14:05]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst, til þess að svara spurningunni skýrt, þá er það mat ráðuneytisins og mitt persónulega mat sömuleiðis að það er alveg rétt að segja að ráðuneytið hafi ekki haldið því fram að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun en afstaða ráðuneytisins er í rauninni sú að það þurfi að taka af öll tvímæli um það hvort vindorka yfir 10 MW eigi heima í rammaáætlun eða ekki. Í áliti iðnaðarnefndar frá 29. mars 2011, löngu fyrir mína tíð, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í umsögn umsagnaraðila kom fram sú ábending að gildissvið frumvarpsins væri of þröngt afmarkað. Nefndin fellst á þetta sjónarmið.“

Svo er farið yfir það og sagt hérna skýrt:

„Nefndin leggur því til breytt heiti frumvarpsins og víðtækara gildissvið því að öðrum kosti er frumvarpið afmarkað við virkjunarkosti í fallvötnum eða á háhitasvæðum.“

Þannig að ef það er túlkað að vilji nefndarinnar, a.m.k. á þeim tíma, hafi verið að breyta þyrfti orðalaginu vegna þess að annars tæki það eingöngu til jarðvarma og vatnsafls — þar af leiðir að það má alveg segja að það þurfi að skýra það skýrt. Það sem mér finnst skipta máli í þessu er að það gengur auðvitað ekki, ekki í þessum málaflokki frekar en öðrum, að það sé mat eins ráðuneytis að það sé klárt að það heyri undir rammaáætlun en að það sé mat Orkustofnunar sem heyrir undir mig að svo sé ekki. Mér finnst blasa við að það þurfi bara að skýra þetta.

Verkefni okkar umhverfis- og auðlindaráðherra sem vinnum að þessu saman er hins vegar einfaldlega að búa til ramma utan um það hvernig við metum virkjunarkosti í vindorku og hvernig það mat fer fram. Þá þarf auðvitað að horfa til þess að við erum nú þegar með lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslög, valdheimildir sveitarfélaga yfir sínum málum o.s.frv., þannig að það þarf einfaldlega finna leið til að kortleggja hvar vindorkukostir geta verið vegna þess að ólíkt jarðvarma og vatnsafli þá geta þeir í raun og veru verið alls staðar. En við erum ekki á því heldur viljum við horfa til annarra þátta. (Forseti hringir.) Það þarf að kortleggja það. Og hver er ferill slíkra mála? Mín skoðun er sú að það geti alls ekki verið þannig að ferill slíkra mála sé (Forseti hringir.) með nákvæmlega sama hætti og með vatnsafl og jarðvarma. En allt önnur (Forseti hringir.) sjónarmið gilda þegar kemur að þeim framkvæmdum og ég skal koma að því nánar í (Forseti hringir.) seinna svari mínu.