150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

jöfnun raforkukostnaðar.

[14:10]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér stend ég enn og get ekki annað, til að tala um jöfnun á dreifikostnaði raforku. Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en í þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur. Núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Nú er svo komið að verðið er um fjórðungi hærra í dreifbýli þrátt fyrir jöfnunargjaldið sem sett var á til að jafna dreifikostnað raforku í landinu.

Í því ástandi sem nú ríkir róa mörg fyrirtæki í landinu lífróður til að halda sér gangandi. Ferðaþjónustufyrirtæki eru mörg hver staðsett í dreifbýlinu. Samkeppnisaðstaða þeirra er fyrir vikið miklu verri en þeirra sem kaupa raforkuflutning á þéttbýlisgjaldskrá. Það er þungur baggi fyrir hótel að borga allt upp í 350.000 kr. rafmagnsreikning þegar gestirnir skila sér ekki í hús. Fyrir fyrirtæki sem staðsett er í dreifbýli, hvort sem um er að ræða fyrirtæki í ferðaþjónustu eða matvælaframleiðslu, væri það besti stuðningurinn vegna áhrifa frá Covid að jafna dreifikostnað á raforku.

Frá því að ég var síðast í nóvember með fyrirspurn til iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og við töluðum um jöfnun á raforkukostnaði, hafa aðstæður breyst að mörgu leyti. Skemmdir í óveðrinu í desember og þungur vetur kalla á miklar endurbætur á dreifikerfi raforku sem felur í sér aukakostnað og það gæti leitt af sér enn aukinn mun á flutningskostnaði í þéttbýli og dreifbýli.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Kalla þær aðstæður sem uppi eru núna ekki á enn hraðari vinnu atvinnuvegaráðuneytisins með Orkustofnun við að greina og finna hagkvæmustu leiðina til að jafna dreifikostnað raforku? Hvenær má eiga von á aðgerðum í þessa átt?