150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Ég gef mér að það sé undantekning að hv. þingmaður þingflokks Vinstri grænna kveinki sér undan því að helmingur ræðu sé tengdur loftslagsmálum. En varðandi spurningu hennar um hvort það sé ofbeldi að hvetja börn til þátttöku í loftslagsmótmælum þá var það svo sem ekki beint inntak ræðu minnar. En ég kom inn á það í ræðu minni að mikið hefur verið um það að ung börn, börn sem ekki hafa náð unglingsaldri, upplifi gríðarlegan ótta í tengslum við umræðuna um loftslagsmál.

Ég vil að við pössum okkur á því að ofbeldisumræðan, jafn viðkvæm og erfið og hún er, fari ekki í þann sama farveg, að við bætum ekki annarri ofsahræðslu á þessa yngstu og viðkvæmustu hópa frá leikskólaaldri og upp í fyrri hluta grunnskólaáranna. Ég treysti mér ekki hér og nú til að tilgreina aldursramma en ég get bara sagt að ég hef töluvert sterka sannfæringu fyrir því að börn á leikskólaaldri þurfi að umgangast með mikilli varúð og varfærni í þessum efnum.