150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:30]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég var eins og fleiri sem sátu hér í þingsalnum áðan mjög hissa á ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar og ég skildi hreinlega ekki hvert þingmaðurinn var að fara. Mér hefði þótt vænt um ef hann hefði t.d. fjallað aðeins um það sem fyrir okkur liggur, þ.e. málið sjálft. Þar kemur fram mjög skilmerkilega, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór hér yfir, að um er að ræða fræðsluefni til starfsfólks leikskóla og til barnanna sjálfra sem hæfir aldri þeirra og þroska. Fólk er ekkert að fara fram úr sér þarna, síður en svo. Þarna erum við með okkar bestu sérfræðinga til að gera efni og koma því áleiðis til starfsfólks og leikskólabarnanna sem svo sannarlega þurfa á slíkri fræðslu halda. Eins og fleiri hafa nefnt hér þá verða börn á öllum aldri fyrir kynferðislegu ofbeldi. Því miður. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan að við erum með hátt hlutfall barna og ungmenna, og það kemur líka fram í greinargerð málsins, sem verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur.

Hv. þingmaður hafði áhyggjur af því að börn myndu missa svefn vegna áhyggna af umhverfismálum. Það kann vel að vera að einhverjir missi svefn yfir því en það eru líka börn sem missa svefn og geta ekki sofið árum saman eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, fólk sem getur ekki sofið árum saman. Ég held að við ættum að hafa meiri áhyggjur af því fólki.

Mér finnst merkilegt að hv. þm. Miðflokksins, Anna Kolbrún Árnadóttir, er ekki hér í þingsalnum með okkur. Hún er ein af þeim sem rita undir meirihlutaálitið. Hún er ekki hér til að halda ræðu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er það stefna Miðflokksins eða bara einstakra þingmanna Miðflokksins (Forseti hringir.) að vera á móti því að við förum í svona verkefni? Ég vildi kannski fá það á hreint.