150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[16:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fá þetta á hreint. Mér finnst einmitt mikilvægt að taka þetta upp vegna þess að mér fannst einhvern veginn óeðlilegt að það væri verið að gera okkur það upp að tveir fundir sem hefðu farið í það að ræða um áherslur minni hlutans í nefndinni væru afskrifaðir með þeim hætti að við hefðum ekki sent hv. þingmönnum tölvupóst.

Ég gerði það ekki vegna þess að ég taldi að hv. þingmaður væri ekki móttækilegur fyrir neinum breytingum á þessu frumvarpi eftir óskum minni hlutans þegar nefndarálit meiri hlutans hafði verið kynnt. Það er eins og ég man málsmeðferðina. Mér finnst það skipta máli, virðulegur forseti, hvernig staðið var að málsmeðferð í málinu, það er einmitt mikilvægt vegna þess að það setur reglur um æðstu handhafa ríkisvaldsins og þá skiptir máli að ná breiðri sátt um það og þá skipta vinnubrögðin í kringum það máli. Þess vegna fannst mér óþægilegt að sjá því haldið fram að við hefðum ekkert haft fram að færa í málinu, eins og mér fannst hægt að lesa úr bókun hv. þingmanns.

Er það rangur skilningur hjá þeirri sem hér stendur að þegar hv. þingmaður hafði kynnt nefndarálit sitt stóð minni hlutanum ekki til boða að gera nokkrar einustu breytingar?