150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það sem truflar mig í þessu er að mér finnst eins og þarna sé verið að gera einhverjum sérstökum störfum hærra undir höfði en öðrum. Mér finnst það óþarfi. Mér finnst óþarfi að vera með þessa upptalningu. Ég verð bara að segja það, af ákveðinni reynslu, að það er ekkert síður fólk í þessum störfum sem er að þrýsta á æðstu stjórnendur ríkisins að gera einhverja hluti, alls ekki. Það kemur úr öllum geirum svo að við höldum því til haga.

Mig langaði að ítreka spurninguna sem ég var með áðan varðandi þá sem eiga kannski bara rétt á þriggja mánaða launum út af uppsögn eð einhverju slíku sem undir þetta falla, hvort þeir fái þá þessa sex mánuði. Síðan held ég að það sé líka freistandi að spyrja hvort menn hafi fjallað um hagsmunasamtök og starfsmenn þeirra því að þetta er ekki nógu skýrt að mínu viti. Það kemur reyndar fram í greinargerð að þetta gildi faktískt ekki um hagsmunasamtök nema starfsmenn þeirra. Ég held að þetta gæti valdið ákveðnum ruglingi, þegar stór hagsmunasamtök eða lítil eru að tala við ráðamenn, hvort það er einstaklingurinn eða hagsmunasamtökin sem í hlut eiga.