150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar síðari spurninguna þá er horft til þess, og þetta var líka rætt innan nefndarinnar, að þegar formaður hagsmunasamtaka, stjórnarmeðlimur í hagsmunasamtökum, kemur og hittir ráðherra þá er það bara einfaldlega birt í dagbók og þá á það ekkert að fara á milli mála. Hér er verið að horfa til þeirra, með leyfi forseta, sem kallaðir eru lobbíistar á erlendri grundu.

Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns er það ljóst að hér er talað um sex mánuði, þ.e. þeim er óheimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði eftir að störfum þeirra fyrir Stjórnarráð Íslands lýkur. Ef ég skil hv. þingmann er hann að spyrja út í það. Það er bara skýrt hvað það þýðir og á ekkert að breyta því hvað gerist fram að því, þ.e. bara í sex mánuði eftir að störfum þeirra lýkur. Hverjir það eru kemur svo fram í 1. gr. og eins í 4. gr., en við skulum muna að ef breytingartillaga meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verður samþykkt er ekki talað um æðstu handhafa heldur alltaf æðstu stjórnendur.