150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það gerist iðulega að nefndir hæstv. Alþingis hafi vit fyrir framkvæmdarvaldinu og þeim frumvörpum sem það leggur fram. Augljóslega erum við ekki sammála því sem fram kom hjá frumvarpshöfundum er varðar aðstoðarmenn. Við töldum að rétt væri að taka þá sérstaklega fyrir hvað þetta varðar.

Ég nefndi Bandaríkin hér áðan, hv. þingmanni til mikillar skemmtunar. Ég var fráleitt með tæmandi lista yfir þau lönd eða svæði sem eru með álíka reglur og lög í einhverju formi um skráningu hagsmunavarða því að mjög víða úti í heimi þykir þetta eðlilegasti hlutur í heimi. Hagsmunavarsla þykir eðlilegasti hlutur í heimi en hluti af því að gera hana það er að hafa allt skráð og uppi á borðinu. Þá skrá samtök, fyrirtæki, fólk, einstaklingar sig einfaldlega sem hagsmunaverði og ganga að því með opin augun og allir aðrir að nú séu þeir að hafa samband til að reyna að hafa áhrif með hagsmuni í huga.