150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:12]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Hér er um að ræða afar mikilvægt mál sem hefur þýðingu fyrir störf æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins og ekki síður fyrir ásýnd þessara sömu æðstu handhafa þess og það er ekki síður mikilvægt atriði. Það á við um framkvæmdarvaldið rétt eins og dómsvaldið að það þarf að vera svo að kerfið virki og við verðum einnig að gera þá kröfu til þess að það sjáist að það virki, það líti út fyrir að það virki, kerfið beri það með sér. Það verður að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar og stjórnarhátta að þar séu almannahagsmunir hafðir að leiðarljósi og öll umgjörð og allt starf þannig að ekki dragi úr trausti almennings. En traust og gagnsæi eiga ekki eingöngu að vera markmiðið. Traust og gagnsæi verða líka að vera niðurstaðan. Leikreglurnar þurfa að ná því fram að stjórnsýslan sé opin og gagnsæ, það er leiðin til að efla traust á stjórnmálum og stjórnvöldum.

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur um skráningu hagsmuna og hagsmunaárekstra æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Undir gildissviðið falla ráðherrar, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar. Hér er strax ástæða til að gera ákveðnar athugasemdir og ég er þar á svipuðum slóðum og aðrir hv. þingmenn sem hafa tjáð sig um málið. Það er með nokkrum ólíkindum að aðstoðarmenn ráðherra falli ekki undir öll ákvæði frumvarpsins eða efni þess að öllu leyti. Það er ekki síður áhugavert í ljósi þess að meiri hlutanum yfirsást ekki bara það atriði heldur lagðist hann beinlínis gegn því að svo yrði. Ég hef komið að málinu að mjög takmörkuðu leyti. Það var langt komið innan nefndar þegar ég settist á þing og fór að leggja við hlustir en engu að síður var það strax merkjanlegt að við meðferð málsins var beinlínis tekist á um þetta atriði og meiri hlutinn var þessu einfaldlega ósammála.

Frumvarpið er sagt taka til, með leyfi forseta, „þeirra aðila sem sinna æðstu störfum innan Stjórnarráðsins, þ.e. til ráðherra og þeirra sem skipaðir eru af ráðherra og vinna í nánum tengslum við ráðherra og ríkisstjórn. Afar mikilvægt er að tryggja að sem allra fæstir utanaðkomandi þættir raski hæfni þeirra til að sinna þeim mikilvægu störfum sem þeim eru falin við framkvæmd laga í víðtækri merkingu og annarra opinberra verkefna.“

Engu að síður var það niðurstaða meiri hlutans að um aðstoðarmann ráðherra, hans nánasta samstarfsmann í ráðuneytinu og helsta pólitíska ráðgjafa þar innan dyra, bandamann hans í ráðuneytinu, eigi ekki öll ákvæði frumvarpsins að gilda. Það er ástæða til að staldra við þann punkt og hvað er verið að fara með því. Að því sögðu hafa með frumvarpinu verið stigin mikilvæg skref. Málið er mikilvægt. Mörg góð skref eru þar stigin en ákveðin atriði þess eru vonbrigði og sum þeirra af þeim toga að þau draga úr því að frumvarpið geti náð fram markmiði sínu.

Annar ágalli á frumvarpinu er eftirlitið sem kveðið er á um í því. Það er í mínum huga veigamesta atriðið. Til að svona mál geti náð fram tilgangi sínum þarf að tryggja í verki að eftirlitið sé raunverulegt. Ég hef áhyggjur af því að eftirlitið í þeirri mynd sem boðað er í frumvarpinu verði veikt, geti orðið veikt í þeirri umgjörð sem meiri hlutinn leggur til. Eftirlitið með æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins er samkvæmt frumvarpinu einmitt þar, hjá þessum sömu æðstu handhöfum í forsætisráðuneytinu. Ég ætla ekkert að fullyrða um það að eftirlitið verði bitlaust með þeirri leið en sú hætta er svo sannarlega fyrir hendi og það finnst mér áhyggjuefni. Mér finnst sömuleiðis umhugsunarvert að meiri hlutinn vilji fara þá leið. Veikt eftirlitskerfi með hagsmunaárekstrum grefur einfaldlega undan markmiðum frumvarpsins og mun alltaf skilja eftir þá spurningu hvers vegna ekki var vilji til að fara alla leið með þá hugmyndafræði sem frumvarpið stendur fyrir og boðar.

Ég tek því undir með minni hlutanum hvað varðar gagnrýni á eftirlit með því regluverki sem hér er að verða til, þ.e. að sjálfstæð eftirlitsnefnd fái ekki það verkefni að annast eftirlit með því regluverki sem hér er verið að smíða. Eftirlitið yrði með því óháð og með því myndu skapast forsendur fyrir nauðsynlegu trausti á verklaginu að baki regluverkinu. Meiri hlutinn segir um þetta atriði, þ.e. að sjálfstæður eftirlitsaðili fengi það hlutverk að hafa eftirlitið með höndum, í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Telja verður æskilegt að fela forsætisráðuneytinu umrætt eftirlit enda fellur það sem fyrr segir vel að þeim málefnasviðum sem undir það heyra og öðrum áþekkum verkefnum en einnig verður að telja þetta fyrirkomulag samræmast því samhæfingarhlutverki sem forsætisráðherra og ráðuneyti hans fer með í Stjórnarráðinu almennt.“

En þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin og þegar höfð er í huga forsaga frumvarpsins, sú gagnrýni sem íslensk stjórnvöld hafa sætt, þá er markmiðið að baki frumvarpinu ekki samhæfing að þessu leyti. Meginatriðið er regluverk til að skapa traust og verkfæri til að ná fram því trausti er eftirlitsþátturinn. Þá fer mun betur á því og er eðlilegt að það eftirlit, eins og á við um allt eftirlit, fái að vera sjálfstætt og óháð en ekki inni í forsætisráðuneytinu, enda segir meiri hlutinn sjálfur um þetta, með leyfi forseta:

„Með því að fela sérstakri nefnd slíkt eftirlit væri upp að vissu marki komið til móts við kröfur um óhæði og sjálfstæði þeirra sem falið er að hafa eftirlit með ákvæðum frumvarpsins. Þannig kunna ákveðin réttaröryggissjónarmið að mæla með því að komið sé á fót sérstakri sjálfstæðri nefnd en krafa um að stjórnsýslunefnd sé sjálfstæð og óháð er gjarnan tengd því markmiði að stuðla að málsmeðferð og niðurstaða byggist fremur á málefnalegum sjónarmiðum og jafnframt koma í veg fyrir að grunur vakni um að ómálefnaleg sjónarmið, t.d. af flokkspólitískum toga, hafi ráðið för.“

Ég er hjartanlega sammála þessum orðum og röksemdum. En þrátt fyrir að þetta megi lesa í nefndarálitinu er niðurstaðan sú að þá leið skuli ekki velja og ekki fara. Það er umhugsunarvert í ljósi þess að upp getur komið sú staða að mál sem þarna er til meðferðar lúti að samstarfsfólki ráðherra. Það er óheppilegt að ráðuneytið sé sett í þá stöðu því enda þótt vel verði unnið, og það er sannarlega engin ástæða til að halda öðru fram, verður alltaf þessi skuggi eftir, þessi ásýnd sem er til þess fallin að draga úr trúverðugleika. Sú umgjörð sem meiri hlutinn smíðar utan um eftirlitið veikir frumvarpið að mínu mati og dregur úr þeim nauðsynlega trúverðugleika sem á að nást fram. Það er að mínu mati miður því að málið er gott, markmið þess er gott, regluverkið er þarft og hér eru stigin góð og jákvæð skref, en á því eru ákveðnir gallar, sumir hverjir veigamiklir að mínu mati. Löggjöf sem þessi þarf á því að halda að eftirlitið sé trúverðugt og til þess fallið að skapa traust.