150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hvetur mig til að ræða það að hlutverk aðstoðarmanna sé annað en starfsmanna í ráðuneytinu en það er bókstaflega það sem ég sagði, bæði í andsvörum mínum, í ræðu minni og meira að segja í andsvari rétt áðan. Aðstoðarmenn hafa hins vegar, eins og við hv. þingmaður höfum bæði sagt hérna, aðgang að upplýsingum og tengslaneti og það er í greinargerð frumvarpsins ástæðan fyrir snúningshurðarákvæðinu, ekki ákvarðanir sem eru teknar innan stjórnsýslunnar heldur upplýsingar og tengslanet.

Hv. þingmaður sagði að nauðsynin á þessari lagabreytingu væri óljós með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Mig langaði að spyrja um það, vantar aðeins að ramma það betur inn í tíma. Ef mér skjátlast ekki þá samþykkti hv. þingmaður fyrir rúmum tveimur árum stjórnarsáttmála sem gekk út á það að semja þetta frumvarp. Þar er (Forseti hringir.) talað um nauðsyn þess að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu, sem er það sem er verið að gera með þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Þykir þingmanninum ráðherra hafa farið eitthvað út af sporinu hér? (Forseti hringir.) Hefur þingmanninum snúist hugur síðan hann samþykkti þennan stjórnarsáttmála? (Forseti hringir.)Hvar er misskilningurinn núna?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir einnig á tímamörk.)