150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:29]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á kannski erfitt með að draga eina spurningu út úr þessu seinna andsvari nema að ég átta mig á því að hv. þingmanni þykir ég trúgjarn úr hófi fram. Já, ég tel að það sé mikilvægt að til staðar séu skýrar reglur. Þar með er ekki sagt að allir séu alltaf að reyna að brjóta þær. Ég tel líka mikilvægt varðandi störf þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning, eins og hér er um að ræða, að það ríki gagnsæi, svo að ég noti nú vinsælt orð, mikið tískuorð, um fjármál þeirra og aðstæður svo að erfitt sé að varpa rýrð á störf þeirra og á traust þeirra. Ég held að það sé ekkert síður í þágu og til verndar því fólki sem gegnir störfunum, að erfitt sé að þyrla upp efasemdum og vantrausti um störf þess fólks sem við vitum að gegnir störfum sínum upp til hópa af mikill trúmennsku.

Já, ég trúi því að það sé mikilvægt að stjórnkerfið virki vel fyrir almenning og á sanngjarnan hátt og að þar ríki gagnsæi um hagi manna svo að ekki fari neitt á milli mála um þeirra störf. Ég held að það sé liður í því að endurvekja traust almennings á stjórnkerfinu.