151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan hug á að fara eftir þingsköpum, svo það sé sagt. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir þurfti ekki að fara og ljúga því — það eru ekki stór orð, virðulegur forseti, það er bara rétt lýsing á því sem átti sér stað — að smábátasjómönnum. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður menn að gæta hófs í orðavali.)

Virðulegi forseti. Ég gæti hófs, en ég skal sleppa þessu orði í restinni af þessari ræðu af virðingu við virðulegan forseta. Hún þurfti ekki að gera það, hún kaus að gera það. Hún kaus að gera það þannig að kenna Pírötum, af öllum, um að standa í vegi fyrir málinu með því að hafa það ekki með í sínum samningum, í þinglokasamningum, virðulegur forseti. Hún þurfti ekki að gera það. Það sem við höfum gert í kjölfarið er að við höfum lagt til að málið verði tekið til umræðu hér og það er full alvara á bak við það. Gerum það bara. Það væri rétti leikurinn af meiri hlutanum, að taka málið til umræðu og samþykkja það. En nei, (Forseti hringir.) það má ekki.

Virðulegi forseti. Ég bið hagsmunaaðila (Forseti hringir.) í þessu máli að fylgjast vel með þessari atkvæðagreiðslutöflu því að atkvæðin skipta máli. Niðurstaðan skiptir máli. (Forseti hringir.) Hagsmunir sjómanna skipta máli og eru meira en einhver (Forseti hringir.) leikur í bragði stjórnmálamanna.