151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sakar okkur Pírata um sýndarmennsku. Það er auðvitað ekki rétt. Hið sanna er að við fáum fregnir af því að það væri einhvern veginn óþægilegt fyrir stjórnarflokkana að leggja þetta mál fram akkúrat núna og sjá til þess að smábátasjómenn geti unnið sína vinnu. Og það verður að koma frá okkur Pírötum, það eru skilaboðin frá stjórnarliðinu. Hvar er nú sýndarmennskan, virðulegur forseti, þegar okkur er tjáð að það liggi einhvern veginn á okkur, að við þurfum að leggja þetta til til þess að stjórnin geti látið svo lítið að hjálpa þeim, sem er raunar á þeirra borði með hæstv. sjávarútvegsráðherra innan borðs? Hvar er sýndarmennskan, virðulegi forseti, þegar við heyrum af því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð heldur því fram að það sé Pírötum að kenna að þetta mál komist ekki á dagskrá? Við erum einfaldlega að sýna fram á hvar sýndarmennskan liggur. Við erum tilbúin að setja þetta mál á dagskrá.