154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. framtíðarnefnd fyrir virkilega vel unnin störf sem koma vel fram í þeirri skýrslu sem hér er verið að ræða. Eins og hv. þm. Logi Einarsson benti á í ræðu hér á undan er algjört skilyrði að við séum ekki bara í einhverri viðbragðspólitík. Við þurfum að átta okkur á því að heimurinn sem við lifum í er að breytast á ljóshraða og ef við erum enn þá föst mörg ár aftur í tímann að reyna að laga vandamálin sem við sköpuðum fyrir fimm árum síðan þá munu þau vandamál og þeir hlutir ekki lengur vera eitthvað sem skiptir máli þegar við komum að nútíðinni, ég tala nú ekki um framtíðinni.

Við áttum í morgun, utanríkismálanefnd og þingmannanefnd EES og EFTA, viðræður við bæði stjórnendur EFTA og ESA og eitt af því sem ég ræddi einmitt þar var t.d. að það eru ýmis mál sem verið er að ræða í Evrópusambandinu, stafræni markaðurinn og gervigreindin, og þar er verið að búa til löggjöf sem verið er að samþykkja núna í Evrópusambandinu en verður sennilega ekki samþykkt hér fyrr en eftir tvö, þrjú ár. Hún verður orðin úrelt eftir tvö, þrjú ár. Þá þarf að fara að reyna að halda þessu við. Þarna þarf að setja ákveðinn forgang í þau mál þar sem við þurfum að vera að horfa til framtíðar.

Það er nákvæmlega þetta sem er ástæðan fyrir því að við þurfum að hafa fastanefnd innan þingsins sem er ekki föst bara í því að afgreiða fortíðina eða nútíðina heldur getur gefið sér tíma til að átta sig á því hverjar áskoranir framtíðarinnar eru. Og munum að framtíðin byrjar á morgun. Það sem ég held að sé mikilvægast í því er að finna þverpólitíska samstöðu og sátt um það hvernig við tæklum þessar áskoranir. Það er tækifæri í nefnd sem þarf ekki að vera endalaust að vinna í fortíðinni, sem er lituð af ákvörðunum sem einhver tók í einhverju ráðuneyti einhvern tímann og þá má ekki láta viðkomandi líta illa út eða eitthvað með því að breyta einhverju, heldur horfir fram á við.

Ef það þarf að finna fundartíma þá er ég með tillögu til virðulegs forseta. Hún er sú að hafa þetta til skiptis á móti utanríkismálanefnd. Utanríkismálanefnd fundar í mesta lagi helminginn af tímanum sem er gefinn fyrir hana þannig að það er hægt að nota hinn daginn. Utanríkismálanefnd má hvort eð er hittast hvenær sem er, hvar sem er, með hvaða stutta fyrirvara sem er vegna þess að hún tekur á þannig málum ef það þarf. Þarna ertu kominn með fastan tíma einu sinni í viku. Það myndi vera auðveld lausn ef menn eru að flækjast í einhverjum slíkum vandamálum; hvar ætlum við að koma þessu fyrir?

Hér áðan var verið að ræða stefnu í ákveðnum málaflokki til 15 ára. Þessi stefna fór frá ráðuneyti og inn í nefnd. Jú, það voru einhverjir sem sögðu frá einhverju en það var enginn að horfa í framtíðarlinsuna í því máli. Það var enginn að horfa á 10–15 árin. Það voru allir að horfa á fyrstu þrjú árin eða fyrstu tvö árin. Þarna gæti framtíðarnefnd fengið þessar stefnur og vísað t.d. málum eins og því sem kom frá umhverfis- og samgöngunefnd áðan til framtíðarnefndar og beðið framtíðarnefnd um að setja upp framtíðargleraugun og koma með hugmyndir út frá því.

Ég sé líka fyrir mér að þegar framtíðarnefnd er að skoða einhverjar áskoranir sem hún velur sem frumkvæðismál að taka upp, eins og t.d. gervigreind eða eitthvað slíkt, að eftir að hafa fjallað um þau mál, eftir að hafa rætt mikið við sérfræðingana í ráðuneytunum og annað gæti slík nefnd lagt fram ályktanir til ríkisstjórnarinnar, ályktanir sem væru þverpólitískar, ályktanir sem væru byggðar á því að horfa fram á við en ekki viðbragð.

Það er hægt að horfa á þetta allt saman og hugsa út leiðir til að tryggja að við séum ekki bara í viðbragðspólitík alla daga. Við hljótum að hafa séð það á undanförnum árum hversu erfitt er að vera í viðbragðspólitík, að horfa alltaf í baksýnisspegilinn og segja: Það hefði nú verið gott ef við hefðum verið búin að hugsa þetta aðeins út. Það hefði nú verið gott. Það þýðir ekki, heldur á það að vera: Frábært að við vorum búin að hugsa eitthvað. Þetta lærði maður af því að eiga við náttúruhamfarir víða um heim. Við sem vorum búin að búa til einhverjar viðbragðsáætlanir, við sem vorum búin að hugsa og æfa jafnvel ákveðið viðbragð, ákveðnar leiðir, með öðrum orðum búin að láta hugsanir um mögulega framtíð, þessar sviðsmyndir, fara í gegnum heilann þótt það væri ekki nema einu sinni eða tvisvar — það hjálpar okkur líka við það að takast á við hlutina þegar þeir gerast.

En þetta er ekki bara spurning um það heldur er þetta líka spurning um að þessi tækni, þessar breytingar, allt þetta sem er að gerast, það skapar tækifæri en það skapar ekki tækifæri ef við erum langt á eftir öllum öðrum. Ef við erum þau síðustu sem uppgötvum að gervigreind er að breyta heiminum þá eru engin tækifæri á Íslandi en ef við erum ein af þeim fyrstu sem áttum okkur á því hvað er að gerast í breytingum á þessu sviði þá getum við, þetta litla land, verið með nýsköpun í lagaumhverfi og ýmislegt annað sem leyfir þessu tækifæri að blómstra og skila sér inn í hagkerfið og skapa störf, skapa tekjur fyrir ríkissjóð og skapa möguleika fyrir okkur að vera leiðandi á einhverju sviði.

Sjáum bara hvað við höfum gert t.d. þegar kemur að hlutum eins og jafnréttismálum. Við tókum þau upp á arma okkar og fórum að vinna í þessum málum þvert á alla málaflokka, mjög oft þvert á alla stjórnmálaflokka. Og hvar erum við? Það er litið til okkar sem leiðtoga á þessu sviði af því að við trúðum á þá framtíð að öll kyn væru jöfn.

Svona getum við skapað tækifæri og það gerum við með því að vinna saman, með því að vera með gott samstarf, eins og hefur verið innan framtíðarnefndar, þar sem við horfum fram á við og látum ekki fortíðina binda okkur í einhver slagsmál um pólitík heldur hugsum út fyrir boxið. Ég styð heils hugar allar þær breytingar sem verða til þess að framtíðarnefnd verði gerð að fastanefnd þingsins.