154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Hann kom inn á mjög nauðsynlegan umræðuvettvang sem við þurfum held ég að gefa dálítinn gaum. Eins og hv. þingmaður sagði þá einhvern veginn getum við ekki tekið á ýmsum málum bara hér á litla Íslandi af því að internetið er úti um allt. En við gerum það samt. Við þurfum samt að gera það. Þó að það séu kannski engin rétt svör fyrir framtíðina þá höfum við alla vega það gildismat að gera okkur mögulega grein fyrir röngum svörum fyrir framtíðina, varðandi t.d. mannréttindi og þess háttar sem við viljum viðhalda. Þannig að þegar við horfum á möguleika eins og tengjast gervigreindinni þá skoðum við þá, myndi ég alla vega ætla, með því stækkunargleri sem við álítum varhugaverð gagnvart framtíðinni með tilliti til þeirra mannréttinda sem við viljum viðhalda.

Á þeim forsendum getum við gert ýmislegt hérna á Íslandi þó að internetið sé alls staðar. Þar er t.d. frumvarp sem ég hef lagt fyrir þingið sem á einfaldlega að tryggja að verk sem gervigreindin býr til af alvörufólki, að tryggja að fólk eigi í rauninni höfundarrétt á sjálfu sér, tryggja þann rétt. Við getum gert það. Þó að kannski sé erfitt að framfylgja þeim lögum síðan gagnvart alþjóðasamfélaginu þá er það samt réttur sem við getum tryggt á Íslandi. Þá eru jú flækindin kannski að sækja þann rétt en rétturinn er tryggður óháð því.