154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:43]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er mjög góður punktur sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kemur hér inn á og þetta er bara rétt. Það er margt sem við getum gert hér innan lands og það frumvarp sem hv. þingmaður nefnir, sem ég hef lesið og þykir mjög áhugavert, er klárlega ein af þeim leiðum sem við getum skoðað. Það eru margar aðrar leiðir líka. Við erum náttúrlega að skoða þetta að fólk eigi höfundarrétt á sjálfu sér og við sjáum líka hvernig staða barna er með gervigreindina, notkun barna á gervigreind innan skóla. Það er líka einn vettvangur sem er algerlega nauðsynlegt að skoða, sérstaklega í ljósi þess að börnin vita oft ekki hvað þau eru með í höndunum, og hver er þá öryggisvinkillinn þar? Hvað getum við gert til þess að tryggja öryggi barna á netinu? Það er mjög erfitt að ná utan um það, mjög. Við höfum verið að koma með frumvörp sem hafa verið samþykkt hérna inni varðandi t.d. stafrænt kynferðisofbeldi og nú erum við að sjá að það er verið að nota gervigreindina til að búa til myndir af einstaklingum í aðstæðum sem þeir hafa aldrei verið í og koma mjög illa út fyrir þá, þannig að þetta er vettvangur þar sem við getum reynt að gera eitthvað. En svo er þetta svo svakalega stórt að það er svo margt sem við getum ekki gert nema gera það í samstarfi við önnur lönd. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir hérna, það eru klárlega tækifæri hér innan lands til þess að koma með löggjöf til að tryggja okkar eigið samfélag. Og vettvangurinn til þess finnst mér einmitt vera framtíðarnefndin, til að skoða og fá sérfræðinga saman, af því við þurfum að fá lögregluna inn í svona mál, við þurfum að fá gervigreindarsérfræðinga inn í svona mál og síðan veltur það á umræðuefninu nákvæmlega hvaða sérfræðinga við þurfum að fá að borðinu.