154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt áhugavert að þessi mál sem er búið að tala um í þessari umræðu séu á vettvangi framtíðarnefndar án þess að nefndin sé orðin að fastanefnd hérna. Ég styð eindregið að svo verði gert. Og þá veltir maður fyrir sér hvort þetta verði þannig nefnd sem tekur við ályktunum eða frumvörpum beint úr þingsal, t.d. eins og því frumvarpi sem ég var með, að senda það framtíðarnefnd frekar en allsherjar- og menntamálanefnd eða eitthvað svoleiðis, eða hvort hún sé í rauninni bara í umsagnarverkum varðandi það að sjá hvaða mál þingið er að vinna og velja til sín ákveðin mál til umsagnar ef nefndinni finnst þau snerta á framtíðarvangaveltum. Þetta eru áhugaverð atriði sem ég held að við verðum að pæla aðeins í með þessa nefnd, því að hún er ekki alveg eins og hinar nefndirnar. Hún á síður við nútímann kannski en nútíminn á að gefa okkur vísbendingar til framtíðarinnar, hvert við erum að stefna. Rosalega mikið af löggjöfinni sem við setjum hérna núna er: Við ætlum að gera ráðstafanir núna, við ætlum að laga þetta. En stundum er það sem við þurfum að spyrja okkur: Hverjar eru afleiðingarnar til framtíðar? Kannski er framtíðarnefnd góður vettvangur til að ræða það.