154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni spurninguna. Framtíðarnefndin er ekki orðin þessi vettvangur en ég held klárlega að þetta sé sú leið sem ætti að fara. Hvort hún verði fastanefnd á næstu árum veit ég ekki en ég held að það sé sú framtíðarsýn sem við ættum að horfa til og þá held ég að þetta sé nefnd sem hægt væri að beina málum til. Nú geta t.d. tæknibreytingar náð inn á nokkrar nefndir, það fer eftir því hver útgangspunktur þeirra er. Við erum samt líka að sjá að það er verið að setja stefnur og aðgerðaáætlanir sem ná mjög langt fram í tímann.

Við höfum komið fram með stefnur sem ná til ársins 2040 — bara það fyrsta sem mér dettur í hug er varðandi t.d. matvæli og landbúnað. Ættum við kannski að horfa til þess að ef stefnur ná lengra en tíu ár, 15 ár þá sé krafist umsagna framtíðarnefndar eða að þetta sé bara nefnd sem taki á ákveðnum málaflokkum eins og er varðar tæknibreytingar og nýsköpun? Þetta er klárlega eitthvað sem er í dag risastór partur af nútímasamfélagi og verður mun stærri partur í framtíðinni. Það eru mjög margir málaflokkar sem gætu heyrt undir framtíðarnefndina en framtíðarnefndin er ekki komin á þann stað í dag þar sem hún er bara í mótun.

Við megum heldur ekki fara á undan okkur í þessu vegna þess að við viljum gera þetta vel. Við viljum að framtíðarnefndin sé sú fyrirmynd sem hún er að verða því að það er að vekja athygli úti í heimi hvernig við erum að vinna þessa vinnu hjá okkur. Við þurfum að tryggja það að hún sé gerð vel. Finnska framtíðarnefndin er að óska eftir aðstoð frá okkur vegna þess að þau eru búin að vera með sína svo lengi í gangi og fólk er að leita til þeirra. Þannig að við verðum að hafa það í huga að við þurfum að vinna þessa vinnu mjög vel.