154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[16:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þá vil ég kannski hefja aftur ræðuna á þeim orðum sem voru hérna síðast í andsvari. Við verðum að vinna hlutina vel. En á sama tíma — ég lendi oft í þessu í þingstörfunum — megum við ekki vera svo varkár að við gerum ekki neitt í allt of langan tíma. Við eigum frekar að þora að prófa og vera þá móttækileg fyrir því að það sem við prófum virki ekki eins vel og við bjuggumst við og vera þá tilbúin til að aðlaga okkur, breyta, umpóla til að ná þeim árangri sem við kannski getum verið sammála um. Ég hef mikið upplifað að það sé ósætti hérna um það hvernig við eigum að gera hlutina en ekki hvaða árangri eigi að ná. Ef við spyrðum okkur oftar hvaða árangri við vildum ná þá væri kannski meira samkomulag hérna heldur en er.

Ég upplifði þetta rosalega mikið í umræðunni um fjármálaáætlun þar sem kjarninn í því hvernig við eigum að horfa til framtíðar er að setja stefnu um ákveðin markmið. Hvert ætlum við að ná á næstu 5, 10, 15 árum? Hvar viljum við vera? Við spyrjum eiginlega síður hvernig við ætlum að komast þangað, af því að það er ferli sem við uppgötvum eftir því sem á líður. Svo lengi sem við höfum markmiðið þá kunnum við að labba nokkurn veginn þangað. Það eru kannski hólar og tjarnir o.s.frv. sem við þurfum að sneiða fram hjá eða bryggja brýr yfir eða eitthvað því um líkt til þess að komast að markmiðinu sem við sjáum í fjarska en ef við festumst of mikið í því að karpa um það hvort við eigum að taka hægri leiðina eða vinstri leiðina þá komumst við aldrei að því markmiði sem við erum samt öll sammála um.

Það er kannski þannig sem framtíðarnefndin gæti hjálpað okkur við að sinna þingstörfunum hérna, af því að mér finnst þau hjakka dálítið í ákveðnum hjólförum þess hvernig stjórnmál voru stunduð einu sinni, hvernig ákveðnar persónur hér innan húss voru einfaldlega að rífast, voru bara ósammála og gátu ekki komist upp úr því. Það bjó til ákveðna stemningu eða ákveðna aðferðafræði við að sinna þingstörfunum sem er enn við lýði þrátt fyrir að tilurð þessa fyrirkomulags sé bara horfin og tilgangslaus. Ég upplifi það rosalega oft að það sé einfaldlega gert ráð fyrir því að sú gagnrýni sem maður kemur með sé ómálefnaleg gagnrýni af því að þannig séu andstæðingar. Þetta er tilvitnun frá fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, sem sagðist hjóla í öll mál. Sama hvað honum fyndist í hjarta sínu um þau mál, þótt hann væri sammála þeim þá hjólaði hann samt í þau. Og það er ómálefnalegt. Þannig eru stundum viðtökurnar við gagnrýni. Það er einfaldlega búist við því að það sé verið að finna að einhverju sem er ekki til staðar.

Aðeins að því sem ég ætlaði frekar að tala um, þ.e. gervigreindinni. Til framtíðar er þetta ein stærsta tækniframförin sem við höfum nokkurn tímann upplifað. Hún er varla byrjuð en þegar hún verður orðin ágætlega slípuð til — eins mikið og hægt er að kalla þetta það af því að það verður alveg rosaleg þróun í þessari tækni á næstu áratugum og í enn fjarlægari framtíð — þá mun hún valda svo miklum breytingum að við getum ekki gert okkur smávægilega grein fyrir því hvert við munum stefna eftir breytingarnar og allar breytingar í kjölfarið á því. Þá vil ég minna á að við þurfum alla vega að grundvalla okkur, kjarna okkur í þeim gildum sem við viljum viðhalda. Þau gildi geta vissulega breyst eftir því sem tíminn líður. Sem betur fer höfum við unnið á og við höfum styrkt þessi grundvallarréttindi og mannréttindi fólks eftir því sem á líður í staðinn fyrir að rýra þau, þó að slagurinn um það sé stöðugt til staðar. Það er sífellt verið að reyna að vinna gegn þeim réttindum sem hafa áunnist en við höldum alla vega áfram slagnum. Ef við grundvöllum okkur út frá þessum sameiginlegu gildum sem hafa áunnist í mannréttindayfirlýsingum og mannréttindasáttmálum o.s.frv. þá ættum við að hafa nokkuð gott leiðarljós um það hvernig við tökumst á við þessa tækni og tæknibreytingar sem gervigreindin býður upp á.

Hættan við gervigreindina og þróunina þar á bak við er í rauninni mesta einokunarhætta sem við höfum nokkurn tímann upplifað, þ.e. að sjálfvirknivæðingin sem fylgir gervigreindinni og peningarnir og aðstaðan sem þarf til að búa til stóra og góða gervigreind er í rauninni slík að það er ekki á færi allra að viðhalda og uppfæra slíka tækni sem gerir það að verkum að hún er náttúrlega hentug fyrir einokunarstarfsemi. Við getum annaðhvort gert ekki neitt, og þar af leiðandi mun niðurstaðan verða að það verða fáir stórir sem eiga gervigreindina og í rauninni allar afurðir hennar og allan ábata og ágóða af notkun gervigreindarinnar, eða við getum hugsað: Nei, fyrirgefið, þetta verður að vera aðgengilegra. Það er alveg hægt að gera það án þess að fórna ýmsum öðrum hagsmunum, sem sumir bera mismikla virðingu fyrir, en allt í lagi, höldum því til haga hvert lágmarkið væri alla vega.

Tæknin á bak við það hvernig á að byggja upp gervigreind er tiltölulega aðgengileg. Hún er mjög vísindaleg og aðgengileg fyrir alla. Þetta er bara ákveðin stærðfræði sem er þarna og gott og blessað með það. Við þurfum ekkert voðalega mikið að pæla í því. Tæknilega séð er gervigreindin aðgengileg. En gögnin sem þarf til að þjálfa gervigreindina eru ekki aðgengileg. Þau eru á margs konar formi og ættu í rauninni að vera óaðgengilegri fyrir þau sem eru að þjálfa gervigreindina heldur en þau eru. Það eru t.d. höfundaréttarvarin verk. Á sama tíma er eðlilegt að gervigreind geti lært af því sem hún einfaldlega sér sem myndavél. Ef hún gengur um götur borgarinnar og tekur myndir alveg eins og fólk gerir þá lærir hún af því, sem segir okkur að þau gögn sem gervigreindin er þjálfuð með þurfa að vera aðgengileg. Þegar ég sé einhverja gervigreind sem eitthvert fyrirtæki hannar þá á ég að geta spurt: Hvaða gögn notaðir þú til að þjálfa þessa gervigreind? Og það á bara að vera aðgengilegt. Það er þessi gagnapakki, gjörðu svo vel — einhver petabæt eða hvað sem það er, með öllum þeim fyrirvörum sem þar eru, merkingum um greiðslur og þess háttar fyrir lokað efni eða höfundavarið efni sem var notað í þjálfuninni, þannig að ég geti einfaldlega tekið þann gagnapakka og þjálfað mína gervigreind á sambærilegan hátt og þessi aðili sem þarf að veita aðgang að gögnunum.

Lykilatriðið þar er ákveðið milliskref sem er svona galdrasósan í þessu öllu, hvernig gögnin eru merkt fyrir þjálfunina á gervigreindinni og þess háttar. Það er eitthvað sem þarf ekki að veita aðgang að. Það er svona viðskiptaleyndarmálsdót og það er bara eitthvað sem hver og einn aðili fyrir sig getur sérhæft sig í. En með þessu er t.d. hægt að sjá hvort það sé einhver hlutdrægni í gangi. Það var talað um hlutdrægni gagnvart konum eða minnihlutahópum sem er oft í gögnunum. Þá er hægt að skoða gögnin og sjá það. Þegar afurð lítur út fyrir að vera jafnvel brot á höfundaréttarlögum þá er hægt að skoða hvort þau gögn séu þar og hvort það sé verið að afrita eitthvað. Þá er hægt að meðhöndla það á nákvæmlega sama hátt og þegar manneskja afritar verk annarra og gerir einhvers konar paródíu eða eitthvað þess háttar. (Forseti hringir.) Þannig að það er margt sem þarf að huga að. Meira um það seinna.